143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[16:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim í svokallaðri stjórnarandstöðu sem bera mjög mikla virðingu fyrir fjárlögum, sérstaklega hallalausum fjárlögum, því að þau eru ofboðslega mikilvæg. Við getum ekki haldið áfram hallarekstri endalaust. Þannig að í hvert sinn sem ég er spurður af vinum og vandamönnum hvort ekki sé hægt að setja meiri peninga í Kvikmyndasjóð, listamannalaun, sinfóníuhljómsveit, lögregluna eða eitthvað því um líkt spyr ég: Ertu til í fá það lánað? Undir þessum kringumstæðum verðum við að spyrja okkur um öll fjárútlát: Erum við reiðubúin að fá það lánað?

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sagt að einstaklingur eigi í raun og veru ekki að fá lánað fyrir neinu nema húsnæði og menntun. Ég legg til að atriðin verði þrjú: Húsnæði, menntun og líf. Ég held að sé í lagi að fá lánað fyrir lífi. Við þurfum ekki endilega að fá þetta lánað. Við getum tekið til baka áformaða skattalækkun á tekjuskatti. Ef ég skil töluna rétt ætti það alla vega að duga í bili og halda okkur nokkurn veginn á floti á meðan við finnum fleiri lausnir við öllum hinum vandamálunum sem að okkur steðja í þessum málum.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson segist reiðubúinn til þess að leita allra leiða. Hér er ein leið, hún er frekar einföld: Hættum við þessa tekjuskattslækkun og borgum fyrir þetta þannig. Ef ekki, fáum það lánað, það er þess virði.