143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:53]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir ræðuna og þær ábendingar sem koma fram í henni. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki hér en mér skilst að lögð hafi verið áhersla á það hvernig hægt sé að auka sveigjanleikann í núverandi byggingarreglugerð og hefur verið farið í vinnu við það að bera saman þá byggingarreglugerð sem er hér og annars staðar á Norðurlöndunum og þá sérstaklega í Danmörku. Við fyrstu niðurstöður hefur sýnt sig að það er meiri sveigjanleiki í því hvernig menn hafa sett upp byggingarreglugerðina þar, jafnvel líka að einhverju leyti í Noregi. Það er fyrst og fremst verið að huga að því.

Eitt af þeim verkefnum sem snýr að framtíðarskipulagi húsnæðismála verður að huga að því hvernig sé hægt að styðja betur við breytingar á því húsnæði sem fyrir er fyrir hreyfihamlaða og aldraða einstaklinga. Það þarf að koma því í betra form og huga að því bara almennt hvernig við ætlum að styðja við félagslegt húsnæði og greiða þann kostnað sem felst í því. Þetta eru allt þættir sem þarf að huga að.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt og ég hef einmitt mikinn áhuga á því að setja af stað sérstaka vinnu hvað að þessu snýr. Það er mjög mikil tækniþróun í gangi sem snýr að ýmsum hjálpartækjum fyrir bæði aldraða og þá sem fást við einhvers konar fötlun þannig að það sem við sjáum kannski fyrir okkur er að staðan eftir tíu ár geti orðið allt önnur miðað við það hve þróunin hefur verið hröð og gífurlega spennandi. Eitt af því sem ég hef áhuga á að setja af stað á vegum ráðuneytisins er hvernig við getum stutt betur við þróun og notkun velferðartækni sem að mínu mati opnar alveg nýja heima, nýjar víddir fyrir okkur á hinum ýmsu sviðum í mannlífinu.