143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[12:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni fyrir stuðninginn við tillöguna. Hann spyr af hverju flokkurinn var ekki búinn að gera eitthvað fyrr. Ég ætla að byrja á því að segja, herra forseti, að ég get vel skilið að hann spyrji þessarar spurningar. Þá finnst mér ekki síður mikilvægt að svara henni, því eins og ég fór yfir í ræðu minni var unnin gríðarleg vinna á síðasta kjörtímabili. Það voru mótaðar tillögur um nýtt húsnæðisbótakerfi og frumvarpsvinna var í gangi. Við vorum komin langt á veg með mjög mikið af þeirri vinnu. Það má heldur ekki gleymast að eftir hrunið — í fyrsta lagi var vandamálið fyrir hrun að húsnæðisverð var allt of hátt og það var gríðarleg húsnæðisbóla í landinu og verið var að reyna að leita leiða til að tryggja húsnæðisöryggi, en eftir hrun var mikið um rústabjörgun. Svo þegar aðeins var liðið á kjörtímabilið hófst mjög stefnumótandi vinna með aðkomu margra aðila. Við erum með samhljóma stefnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það má segja að allir séu í startholunum að hefja vinnu í samræmi við þessar áætlanir.

Þess vegna hef ég verið svolítið hissa á að ráðherra setji ekki meira púður í að klára útfærslu þessara hugmynda í frumvarp í stað þess að hefja aftur stefnumótandi vinnu því hún liggur fyrir og það er mikil sátt um hana. En það tók líka tíma að vinna hana og ná henni fram því að það var litið til allra þátta sem vörðuðu húsnæðismál en ekki eingöngu horft á fjármögnunarþáttinn.