143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[16:00]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Virðulegi forseti. Ég var nýlega spurður að því af félaga mínum hvort ríkisstjórnin ætli í alvöru að afturkalla nýju náttúruverndarlögin, hvort við værum hreinlega á móti náttúruvernd. Umræðan í fjölmiðlum og samfélaginu og sérstaklega hérna hefur verið á þann veg að ekkert eigi að koma í staðinn, að bara sé verið að draga til baka og ekkert verið að laga. Það er rangt. Búið er að afvegaleiða umræðuna um þennan mikilvæga málaflokk í pólitískum tilgangi.

Hér er satt að segja um að ræða gríðarlega umdeild lög sem voru ekki samþykkt í sátt. Ég tel að þegar rætt er um hvernig við verndum landið okkar þurfi að minnsta kosti að ríkja eitthvað sem líkist almennri víðtækri sátt. Ákvörðun hæstv. ráðherra um að endurskoða lögin og leita þessara víðtæku sáttar, hversu mikið sem það er talað niður hér, hlýtur þess vegna að teljast, alla vega að mínu mati, bæði skynsamleg og virðingarverð.

Það er eitt sem mig langar sérstaklega til að koma inn á með lögin sem dæmi um eitt sem ég tel að þurfi að skoða mun betur og ná sátt um og það er hvort lögin nái fram þeim tilgangi sem kemur fram í markmiðum laganna. Í 1. gr. laganna segir, með leyfi forseta, að lögin eigi að „auðvelda umgengni og kynni almennings af náttúru landsins og menningarminjum sem henni tengjast og efla þekkingu og fræðslu um náttúruna“. Ég tel að lögin nái því engan veginn og hafa borist um það fjöldamargar ábendingar á mörgum sviðum í þjóðfélaginu. Þetta er dæmi um það sem við þurfum að skoða betur.

Að síðustu stuttlega varðandi það hvort nóg sé að snurfusa og taka til ákveðnar greinar laganna. Ég er persónulega það mikill áhugamaður um umhverfismál að mér finnst tilraun ráðherra til að reyna að ná víðtækri sátt í samfélaginu vera þess virði.