143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég sé fyrir mér að Íslendingar muni að sjálfsögðu taka áfram fullan þátt í þeim fríverslunarsamningum og viðræðum sem EFTA-ríkin gera við viðsemjendur sína, önnur ríki. Þar er margt í pípunum. Minnist ég bara í fljótu bragði samnings sem verið er að vinna að við Rússland, Kasakstan og Hvíta-Rússland. Það er því verið að vinna að þessu og þetta er sá samningur sem við leggjum mikla áherslu á núna.

Ég er ekki tilbúinn til þess að segja hér við hverja Ísland muni gera tvíhliða fríverslunarsamninga. Ég held að það sé eitthvað sem við erum einfaldlega alltaf að skoða og vinna að — hvar tækifæri eru til slíks. Það er alveg ljóst að það eru mörg ríki í heiminum sem við gætum eflaust gert góða samninga við sem eru stórveldi þegar kemur að viðskiptum og þess háttar. Markmið slíkra samninga hlýtur alltaf að vera að gæta hagsmuna Íslands. Að sjálfsögðu gefum við líka eitthvað á móti og bætum vonandi hag þeirra sem við semjum við með einhverjum hætti. Auðvitað reynum við að ná sem bestum samningum fyrir íslensk fyrirtæki og íslenskt atvinnulíf. Við erum nú einu sinni þjóð sem lifir hvað mest á útflutningi og reyndar innflutningi á ferðamönnum líka, en útflutningur er það sem skiptir okkur mestu.

Það að nota fríverslunarsamninga sem einhvers konar þróunaraðstoð finnst mér fyrst og fremst áhugaverð hugmynd sem vert er að ræða. Það má að sjálfsögðu velta því fyrir sér með fríverslunarsamninga sem gerðir eru við þróunarríki — það vill svo til að stórveldið Kína telst því miður enn til þróunarríkja — að slíkir samningar geta (Forseti hringir.) leitt gott af sér.