143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[15:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998. Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði laga um dómstóla sem kveða á um fjölda dómara í héraði skuli vera 43 og það ákvæði verði framlengt um eitt ár en heimildin á að falla úr gildi um næstu áramót.

Í kjölfar þess aukna álags sem varð hjá dómstólum í kjölfar bankahrunsins var gerð sú breyting á lögum um dómstóla að dómurum í héraði fjölgaði úr 38 í 43. Var þessi fjölgun dómara tímabundin að því leyti að eftir 1. janúar 2013 skyldi ekki ráðið í þær dómarastöður sem losnuðu þar til fjöldi dómara yrði aftur orðinn 38. Þessi heimild var svo endurnýjuð á síðasta ári og heimildin framlengd til 1. janúar 2014.

Fyrir liggur að álag á dómstólunum er enn mikið þar sem ekki hefur verið leyst úr öllum ágreiningsmálum sem varða slitastjórnir bankanna, málum frá embætti sérstaks saksóknara, öðrum málum sem tengjast hruni viðskiptabankanna haustið 2008 til viðbótar við þann fjölda mála sem er á borði dómstóla. Því hefur dómstólaráð farið þess á leit við ráðuneyti innanríkismála að gripið verði til aðgerða svo áfram verði unnt að leysa innan ásættanlegs tíma úr þeim málum sem enn liggja fyrir dómstólum.

Ráðuneytið telur rétt að verða við þessari ábendingu dómstólaráðs og ljóst er að þau mál sem eru til meðferðar hjá dómstólum eru flókin og umfangsmikil og fyrst og síðast er þar um að ræða mál er tengjast bankahruni eins og áður hefur verið nefnt. Álagið á dómstólunum er því enn mikið.

Ég legg því til og óska eftir því að þetta mál sem hér hefur verið kynnt í helstu efnisatriðum fari til 2. umr. en áður verði því vísað til allsherjar- og menntamálanefndar svo tryggt megi vera og ljóst geti verið að áfram geti dómarar í héraði verið 43 en ekki 38. Það er rétt að taka fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að veitt verði tímabundið 86 millj. kr. framlag vegna fjölgunar dómara í umræddan tíma.