143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[15:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek algjörlega undir það með hv. þingmanni, það er ekki vinnuregla sem við viljum viðhafa sem almenna vinnureglu, að hér sé verið að breyta lögum til eins árs í senn. En það er hins vegar talin þörf á því núna líkt og var talin þörf á því fyrir ári.

Vegna þess að hér er nefnd þyngd málanna og einkenni þeirra er rétt að geta þess að það kom skýrt fram í beiðni dómstólaráðs til okkar að álagið er enn þá mikið vegna þeirra ágreiningsmála sem ekki hefur verið leyst úr sem varða slitastjórnir, vegna mála frá embætti sérstaks saksóknara og annarra mála er tengjast hruni viðskiptabankanna. Tilraunin núna með því að framlengja þetta gengur fyrst og síðast út á það að halda þeim dampi sem við teljum nauðsynlegan, gengur út á það að okkur takist að afgreiða málin innan viðunandi tímamarka. Út á það gengur það og ég vona, og ítreka það sem ég sagði áðan, að okkur takist að gera það á þessu ári þannig að við þurfum ekki að standa hér í sömu sporum eftir eitt ár. Svo verður að koma í ljós hvernig okkur gengur með það.