143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[16:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur alla mína samúð út af þeirri kreppu sem hann lýsti á heimili sínu vegna mismunandi launa þeirra hjóna. Ég get hins vegar sagt honum það í fullum trúnaði að ef það eru einu örðugleikarnir sem hann á við að stríða er hann heppinn maður.

Hv. þingmaður benti hins vegar á ákaflega merkan hlut þótti mér. Hann er í reynd að segja að menn hafi túlkað niðurstöður eða úrskurði Evrópudómstólsins á þann veg að segja megi að það hafi horfið til nokkurrar atvinnusköpunar fyrir dómara og leitt til fjölgunar dómara. Mín skamma reynsla af hv. þingmanni í þessum sölum er sú að hann þekkir yfirleitt það sem hann talar um þannig að mér finnst þetta merkilegt.

Hv. þingmaður er í reynd að segja að dómarar séu að vinna störf sem hægt væri að koma til löglærðra fulltrúa og hægt að inna af höndum með töluvert ódýrari hætti en kannski er núna. Í raun og sann ættum við kannski að fjölga löglærðum fulltrúum um nokkur stykki — án þess að ég ætli að gera tillögu um það — í staðinn fyrir að vera að fjölga dómurum um fimm til að geta kannski sparað töluvert fyrir aðþrengdan ríkissjóð. Þá yrði náttúrlega ekki eins erfitt að lifa fyrir hv. þingmenn Vigdísi Hauksdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson.