143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

40 stunda vinnuvika.

19. mál
[16:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að flytja frumvarpið. Þetta hefur verið flutt með ýmsum útfærslum, kannski ekki alveg nákvæmlega þessari, nokkuð oft í gegnum tíðina og ég hef meðal annars flutt mál eins og þetta. Það má kannski segja að dropinn holi steininn — mér finnst viðbrögðin minni og mýkri nú en þá var. Þegar ég flutti þetta fyrir nokkuð mörgum árum komu mjög hörð viðbrögð við hugmyndum sem þessum. Mér líst mjög vel á stærsta hlutann af þessu og ég vonast til að við getum klárað þetta.

Það sem snýr að 1. maí sérstaklega — það ætti að vera augljós hagur allra að breyta því. Jafnvel þó að sumardagurinn fyrsti sé gamall og góður siður, og það lýsi kannski bjartsýni íslensku þjóðarinnar að halda upp á þann dag á þeim tíma ársins þegar allra veðra von, þá held ég að það séu ríkir hagsmunir að færa slíka daga til þannig að almenningur njóti þeirra betur. Ég vonast til þess að málið fái framgang og þó það fari ekki nákvæmlega svona í gegn að við getum í það minnsta afgreitt það með einhverjum hætti. Ég lýsi yfir ánægju minni með þetta og vonast til að þokkaleg samstaða verði um málið.