143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

40 stunda vinnuvika.

19. mál
[16:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma með athugasemd sem mér barst þegar þetta mál var tekið til umræðu á síðasta þingi. Hún kemur frá verslunarfólki sem bendir á að ef fríið sumardaginn fyrsta og uppstigningardag eigi að færast yfir á föstudag verði það sú stétt sem missi alltaf af því að fara í frí. Það yrði þá skynsamlegra einhverra hluta vegna á nákvæmlega sama hátt og sá dagur sem kenndur er við verslunarmenn er fyrsta mánudaginn í ágúst. Eina stéttin sem vinnur alltaf þann dag eru verslunarmenn. Það verður að horfa til þess hvort föstudagurinn er skynsamlegur eða hvort færa eigi fríið yfir á mánudag vegna þess að venjan er sú að það er minni verslun á mánudögum en föstudögum og þá er auðveldara fyrir atvinnulífið að hliðra til og þá njóta flestar stéttir ef ekki allar. Ég tek enn og aftur sem dæmi mánudaginn sem er frídagur verslunarmanna; hann er ekki frídagur verslunarmanna því að það eru sárafáar verslanir á landinu sem loka þann dag og til þess að tryggja að þetta náist fyrir þá sem við erum að tala um, fjölskyldurnar í landinu, börn og foreldra, og atvinnulífið í heild, þá þurfum við að horfa til þessara þátta.

Ég beini því til hv. 1. flutningsmanns, Róberts Marshalls, að skoða hvort í stað föstudags gæti komið mánudagur þannig að fleiri gætu þá hugsanlega notið þessa. Ég er sammála hv. flutningsmanni, Róberti Marshall, um það að fækka og færa þessa stöku daga sem eru fimmtudagarnir er af hinu góða. Það er óhagkvæmni fólgin í því, til dæmis í skipulagi skóla, fyrir nemendur og fyrir foreldra, að fá frí á fimmtudegi og mæta í skóla á föstudegi.

Það er ýmislegt í þessu sem má skoða en ég ítreka athugasemdina frá verslunarfólki um það að ef frídagarnir yrðu færðir yfir á föstudag væru allar verslanir opnar og ekki möguleiki fyrir verslunarfólk að ná frídegi. Það væri ívið betra ef fríið yrði fært fram á mánudag því að verslunin er, eins og ég sagði áðan, alla jafna minni á mánudögum en föstudögum.

Herra forseti. Mig langaði að koma þessu að, en í megindráttum er ég hlynnt því að færa þessa frídaga til að gera þessi frí fjölskylduvænni númer eitt, tvö og þrjú og til hagræðis fyrir atvinnulífið. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég er svolítið minna hlynnt því að ef svo óheppilega vill til að annar í jólum er mánudagur þá verði bætt við aukafrídögum. Ég er ekki alveg á því að það eigi að taka þau skref öll í einu, en þessa stöku frídaga á fimmtudögum finnst mér sjálfsagt að skoða áfram með tilliti til þess sem ég hef bent á.