143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[15:39]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Nýverið var lögð fram skýrsla unnin af Finnborgu Salome Steinþórsdóttur, þessi hérna stóra skýrsla [Hv. þingmaður réttir upp skýrsluna.], undir leiðsögn Gyðu Margrétar Pétursdóttur hjá Háskóla Íslands fyrir tilstuðlan eða í samvinnu við ríkislögreglustjóra.

Í skýrslunni er fjallað um vinnumenningu og kynjatengsl innan lögreglunnar og er varpað ljósi á bága stöðu lögreglukvenna hjá henni. Staða lögreglukvenna var kortlögð með gögnum frá lögregluembættum og var spurningalisti lagður fyrir alla lögreglumenn í maí síðastliðnum. Auk þessa voru stöðluð viðtöl tekin við lögreglukonur sem höfðu farið úr starfi og kynja- og valdatengsl sett í fræðilegt og kenningarlegt samhengi.

Niðurstöður könnunarinnar eru sláandi svo ekki sé meira sagt og varð tilefni umtalsverðs fréttaflutnings þegar skýrslan kom út. Ég ætla að tæpa á nokkrum niðurstöðum.

Konur voru tæp 13% lögreglumanna þann 1. febrúar 2013 þrátt fyrir að hafa verið 17–33% brautskráðra nemenda frá Lögregluskóla ríkisins frá því 1999. Við sjáum því að brotthvarf kvenna frá lögreglunni er verulegt. Nær engar konur eru í efstu starfsstigum lögreglunnar og hefur óánægja hvað varðar framgang í starfi aukist mikið á síðustu árum. Rúmur þriðjungur lögreglukvenna tjáir að á sér hafi verið brotið með kynferðislegri áreitni af hendi karlkyns yfirmanns eða karlkyns samstarfsmanns.

Viðhorf til kvenna eru fremur neikvæð innan lögreglunnar. Konurnar treysta sér og öðrum konum til að sinna öllum verkefnum lögreglunnar en karlar gera það síður. Það sem er kannski alvarlegast er að þessi viðhorf er helst að finna í hópi yngstu lögreglumannanna, þeirra frá 20–29 ára. Viðhorf þeirra eru íhaldssömust sem gefur til kynna að jafnrétti innan lögreglunnar muni ekki aukast sjálfkrafa með komandi kynslóðum.

Það skal tekið fram að þetta slæma vinnuumhverfi hefur ekki aðeins áhrif á konur. 18% allra karlkyns lögreglumanna segjast hafa orðið fyrir einelti af hendi samstarfsmanns eða yfirmanns og 4% þessara karlmanna, lögreglumanna, tjá að þeir hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Þessi skýrsla, herra forseti, er erfið en holl lesning. Það sem mér finnst erfiðast að kyngja er að það erum við, ríkisvaldið og framkvæmdarvaldið, sem bjóðum upp á þessi starfsskilyrði. Það erum við sem leyfum þessari menningu að blómstra sem ungt lögreglufólk gengur inn í, nær ekki að breyta og verður jafnvel samdauna. Þeir sem verða það ekki hætta oft og tíðum.

Það er alveg ljóst að vítahringurinn og þessi valdahringur brýtur sig ekki upp sjálfur. Það gerist aldrei með menningu sem samþykkir undirokun og kúgun. Hún fæðir sjálfa sig á því sama ár eftir ár og það er ástæðan fyrr því að lítið sem ekkert hefur breyst. Staðan hefur verið lögreglu og ráðuneytum ljós lengi, að minnsta kosti síðan 2002. Við sjáum það skýrast á því að þá voru gerðar breytingar á lögum með það að markmiði að auka hlut kvenna í stéttinni. Þau lög hafa ekki borið tilskilinn árangur, því miður.

Svo ég vitni í skýrsluna, herra forseti, hefur á síðustu tíu árum konum fjölgað úr 8,6% í tæplega 13% allra lögreglumanna. Miðað við sams konar þróun verða konur orðnar 30% lögreglumanna 2056, eftir 43 ár, og um 40% lögreglumanna árið 2081, eftir 68 ár.

Við sjáum að þetta gengur ekki svona, þessi löggjöf hafði lítil áhrif en sýndi þó vilja löggjafans sem mikilvægt er að framkvæmdarvaldið virði og fylgi. Því biðla ég til hæstv. innanríkisráðherra að beita sér í málinu.