143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[15:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu. Ég vona að þessi skýrsla endi ekki ofan í skúffu eins og allt of margar skýrslur gera og að ekki verði stofnaður hver vinnuhópurinn á fætur öðrum eða hver nefndin á fætur annarri heldur verði einfaldlega gengið í málið. Það er í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða.

Það hefur komið fram að afar fáar konur ná framgangi innan lögreglunnar og það er ekki endilega hvetjandi að vinna í umhverfi þar sem körlum er hyglað umfram konur þar sem minna hæfir menn komast áfram en hæfum konum er ekki gert kleift að ná framgangi. Þá getur maður spurt sig: Af hverju ættu konur yfir höfuð að sækja í þannig starfsumhverfi? Það hlýtur að vera skýring á því hversu fáar konur sækja í lögreglustörf.

Ég held að það sé alltaf varhugavert þegar hallar verulega á annað kynið. Oftast eru það konur og Hæstiréttur er kannski besta dæmið um það.

Ég þakka þessa góðu umræðu og treysti því að hæstv. ráðherra gangi í þetta mál.