143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að leiðrétta tvennt, eða kannski ekki leiðrétta annað þeirra, en ég vil nefna það sérstaklega að ég er ekki á móti lögum sem eiga að jafna rétt fólks og þar mega jafnvel vera upptalningar mín vegna, t.d. þegar kemur að rétti fólks til þess að sækja þjónustu. Ég er algjörlega hlynntur banni gegn mismunun á þeim vettvangi og ýmsum öðrum lögum þar að lútandi. En þegar kemur að lögum sem beinlínis banna það að grínast með eitthvað eða hæðast að því er ég efins, svo ekki sé meira sagt.

Hvað varðar orð hæstv. ráðherra um að hér sé ekki ráðist á tjáningarfrelsið er það rétt. Við gætum og ættum að hafa hér langa umræðu um það því það er kominn tími til. Með hæstaréttardómi í máli nr. 16/1983 var staðfest gildi laga sem eru mjög sambærileg þessum, þ.e. 125. gr. almennra hegningarlaga sem ég þuldi hérna upp áðan og geri aftur, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Þetta eru mjög sambærileg lög að því leyti að þarna er bannað að gera grín.

Mál nr. 16/1983, Spegilsmálið svokallaða, snerist um grín. Það var mjög greinilega grín. Það eina sem gerðist var að kristnir í landinu og saksóknari sem væntanlega hefur verið kristinn varð móðgaður, svo hann kærði og hann vann. Málið fór fyrir Hæstarétt og hann vann. Það stóðst stjórnarskrá. (Gripið fram í: Húrra fyrir þeim.)

Ef þessi lög eiga að standast lög um tjáningarfrelsi vil ég velta því upp, virðulegi forseti, að það sé eitthvað mikið að því hvernig við lítum á tjáningarfrelsið.