143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

samning stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna.

67. mál
[11:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir allt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði og þakka honum fyrir að bera þessa þingsályktunartillögu fram. Það er svolítið hjákátlegt að mínu mati að tilheyra löggjafarvaldinu, vita að maður sé þegar allt kemur til alls í raunveruleikanum, alvöruraunveruleikanum, háður vilja ríkisstjórnar sama hvað. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á er yfirþyrmandi meiri hluti frumvarpa sem eru samþykkt af Alþingi settur fram af ríkisstjórninni. Ég ítreka orð hv. þingmanns um að stjórnarskráin var ekki skrifuð með það í huga að við værum að kjósa til ríkisstjórnar og að ríkisstjórnin réði síðan einfaldlega öllu. Það var ekki hugsað þannig í upphafi og það á ekki að hugsa það núna.

Við eigum að líta á það sem sögulegt slys að Alþingi hafi smátt og smátt afsalað sér öllu löggjafarvaldinu til ríkisstjórnarinnar og það er hálfhjákátlegt, þó nauðsynlegt, að þessi þingsályktunartillaga komi í formi áskorunar þegar maður hefði haldið að Alþingi ætti að geta ákveðið þetta. Auðvitað virkar þetta ekki þannig.

Hvað sem því líður er teorían sú að við séum löggjafarvaldið, ríkisstjórnin framkvæmdarvaldið og síðan sé dómsvaldið. Hugmyndin er vitaskuld að þetta sé aðskilið en þegar maður vinnur í þessu umhverfi, bara í smástund, áttar maður sig á því að í raun virkar það ekki þannig alveg nákvæmlega. Það virkar þannig formlega og vissulega tökum við til umræðu og getum gagnrýnt frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni o.s.frv.

Nú langar mig að tala aðeins um fílinn í herberginu. Fíllinn í herberginu er sá að ríkisstjórnin þarf að halda. Það er pólitísk nauðsyn að ríkisstjórn haldi. Ég ætla ekki að nefna einstök mál en þegar um er að ræða frumvarp skiptir ekki endilega máli hvort það sé meiri hluti á þingi fyrir frumvarpinu eður ei, þ.e. ef í hættu er að ríkisstjórnin þurfi annaðhvort að breyta sér í kjölfarið eða þjást af svokölluðum pólitískum hnekki sem er víst ægilega skelfilegur ef maður skilur þetta allt saman rétt, sem ég er reyndar ekki viss um. Það væri mun eðlilegra ef Alþingi tæki ákvarðanir út frá umræðum sem eiga sér stað á Alþingi en að greiða atkvæði með eða móti frumvörpum byggt alfarið á því hvort það sé til að klekkja á ríkisstjórninni eða ekki að klekkja á ríkisstjórninni. Við erum að tala til dæmis um miðlæga gagnagrunna, um fjármál fólks eða heilsu þess og þá eigum við að taka ákvörðun út frá þeim forsendum sem varða málefnið sjálft. Við eigum ekki að taka ákvarðanir sem varða jafnvel stjórnarskrá og mannréttindi byggt á því hvort okkar fólk eða hitt fólkið hafi völd eða missi völd eða eitthvað því um líkt. Þetta er að mínu mati alvarlegasta vandamálið við þingstörfin og alvarlegasta vandamálið við stjórnskipan Íslands yfir höfuð. Því fagna ég þessari þingsályktunartillögu, er stoltur af því að vera meðflutningsmaður að henni og tel að verði hún samþykkt muni það leiða til margra góðra hluta.

Það er fleira sem mundi leiða gott af því að þingnefndir og þingmenn sjálfir byrjuðu ferlið að stefnumarkandi frumvörpum sem er það að ágreiningur milli flokka og einstaklinga innan flokka yrði skýr strax frá upphafi. Núna er þetta svolítið þannig að frumvarp kemur inn á þing, það er 1. umr., þingmenn tala um það, síðan fer það í nefnd og þá er byrjað á því að kanna hvar fólkið stendur gagnvart frumvarpinu. Það er auðvitað nauðsynlegur hluti af öllum umræðum en það mætti minnka vægi þess, minnka skotgrafarhernaðinn sem á sér stað strax í byrjun, með því einfaldlega að þingnefndirnar sjálfar komist að því fyrir fram hvernig frumvarpið eigi að vera því að þá er hægt að móta frumvarpið strax út frá forsendum sem eru ekki endilega umdeildar.

Ég minnist enn og aftur sérstaklega hagstofufrumvarpsins frá í sumar þar sem var samhugur um markmið. Ég fullyrði að ef þingnefnd hefði verið falið að semja það frá upphafi hefðum við öll getað samþykkt hér stórglæsilegt frumvarp sem hefði verið laust við þá vankanta sem sá sem hér stendur hefur við það frumvarp að athuga. Það mætti tala vel og lengi um það hvernig þetta mundi bæta samskipti ríkisstjórnar og þingmanna og sömuleiðis bara hvernig verkferlið hérna yrði miklu þægilegra og betra að öllu leyti. Ég ítreka bara að ég er stoltur af því að vera meðflutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu og vona að hún gangi í gegn.