143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:28]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég sagði hér í gær að ég deili áhyggjum flestra þingmanna, og þá fyrir hönd Alþingis, að ekki skuli mál berast inn með þeim hætti sem við hefðum kosið. Ég er hins vegar pínu hugsi og hef löngum verið það sem þingmaður að við skulum þing eftir þing, hvort heldur við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, kalla eftir frumvörpum frá ríkisstjórn á meðan við tölum um að auka sjálfstæði þings og þingmanna. Við ættum að líta líka pínulítið í eigin rann. Hvað getum við sjálf gert til að breyta þessu? Eigum við þingmenn að taka frekar frumkvæðið og leggja fram og búa til frumvörp og fá þau rædd? Hér er fjöldinn allur af þingsályktunartillögum frá þingmönnum sem mælt hefur verið fyrir. Það er vel og ég held að við ættum að fagna því á sama tíma og við erum ósátt við að ekki berist mikilvæg frumvörp sem við vitum að eiga að vera á leiðinni.