143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Heilbrigðismál brenna á þjóðinni og vil ég því vekja máls á hjálparsamtökunum Samhjálp sem styrkt hafa margan manninn aftur út í lífið eftir erfiðleika og veikindi. Markmið Samhjálpar er að koma til hjálpar þeim einstaklingum sem farið hafa halloka í lífinu vegna sjúkdóma, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála og stuðla að velferð og sjálfsbjörg þeirra. Samhjálp hefur rekið áfangaúrræði frá 1986 og rekur meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot ásamt áfangaheimili þar sem markmiðið er að veita félagslega aðhlynningu og gera skjólstæðingum kleift að temja sér nýtt og heilbrigðara líferni með varanlegu bindindi á eigin ábyrgð. Þetta eftirmeðferðarstarf Samhjálpar er til fyrirmyndar og hefur hjálpað mörgum einstaklingum að fóta sig aftur í lífinu.

Samhjálp er með fjölbreytta starfsemi og þar á meðal kaffistofu fyrir utangarðsfólk og aðra aðstöðulausa. Þar eru að jafnaði um 100 manns á hverjum degi. Gistiskýlið er rekið í samstarfi við Reykjavíkurborg þar sem mjög veikir einstaklingar með langa og mikla vímuefnaneyslu að baki leita aðstoðar og hafa oft verið lengi á götunni þegar þeir banka upp á. Starfsemi sem þessi er afar mikilvæg og margir hafa talað um að hún hafi bjargað lífi þeirra.

Samhjálp hefur notið stuðnings fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Má þar efna ungan ofurhuga, Guðna Pál Viktorsson frá Þingeyri, sem safnaði áheitum fyrir Samhjálp þegar hann reri í kringum landið í sumar. Kirkjan, sveitarfélögin og ríkið hafa komið að fjármögnun Samhjálpar sem er grundvöllur þess að hægt sé að reka þessi hjálparsamtök, en þörfin er brýn úti í þjóðfélaginu.

Ég vek athygli á þessum málum vegna þess að nú er verið að vinna að fjárlögum og ríkið hefur stutt Samhjálp á fjárlögum og ég tel mjög brýnt að það geri það áfram með myndarlegum hætti því að þetta er velferðar- og heilbrigðismál okkar allra.