143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

bætt ímynd Alþingis á samfélagsmiðlum.

119. mál
[12:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel það einfaldlega vera þannig að þetta sé bara næsta skref hjá okkur. Á sínum tíma, eins og ég nefndi áðan, var Alþingi á margan hátt í fararbroddi þegar kom að miðlun upplýsinga af þessu tagi, bæði varðandi upptökur á ræðum sem urðu þar með miklu nákvæmari skrásetning á því sem raunverulega hafði farið fram á Alþingi en sú hraðritun sem fór fram þó að allir hafi verið að reyna að gera sitt besta á þeim tíma. Annað skref var stigið með heimasíðunni sem allir eru sammála um að hefur að geyma gríðarlegar upplýsingar, hún er í raun óþrjótandi brunnur fyrir okkur til að nálgast upplýsingar um það sem fram fer á Alþingi.

Það er síðan næsta skref með hvaða hætti við getum gert þessa hluti aðgengilegri en þeir eru í dag. Facebook er einn hluti af því og mögulega aðrir samfélagsmiðlar líka. Vandinn er bara sá, sem ég nefndi hér áðan, að það þarf að vera hafið yfir allan vafa um að verið sé að gæta jafnræðis þegar litið er yfir flóru stjórnmálanna. Síðan er það hitt, sem er kjarni málsins, að þetta er tvenns konar mál. Við erum annars vegar að reyna að miðla upplýsingum til almennings en um leið gera Alþingi aðgengilegra fyrir almenning, við erum að reyna að gera þetta með tvenns konar hætti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að Facebook er almennt í notkun hjá mjög mörgum í samfélaginu. Þetta er nú gjarnan tengt við yngri kynslóðina, það er lík áhugavert að fylgjast með því hversu margir af hinni eldri kynslóð eru líka að tileinka sér þetta, þetta fer að verða eðlilegur þáttur lífi mjög margra.

Í könnun sem ég rakst á um daginn tók ég eftir því að þeir sem á annað borð eru skráðir þátttakendur í Facebook virðast nota þetta mjög mikið, fara inn á síður sínar nokkrum sinnum á dag jafnvel. Sá sem hér stendur var mjög tregur til á sínum tíma að fara á Facebook, var held ég næstsíðastur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins til að gera það og á því var ósköp einföld skýring. Ég var búinn að vera mjög lengi með mína eigin heimasíðu og var mjög virkur — mér líkaði vel að geta bara verið þar með predikun mína, óáreittur inni á minni síðu.