143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga.

[15:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Vill þá ekki hagfræðingurinn, hæstv. forsætisráðherra, lækka skattana enn þá meira til að auka tekjurnar enn þá meira? Við höfum heyrt þá þvælu áður í þingsölum að með því að lækka skattana aukist tekjurnar alveg upp úr öllu valdi. Annað hefur komið á daginn.

Það liggur fyrir að afkoman verður væntanlega á rekstrargrunni um 7 milljörðum lakari vegna ákvarðana þessarar ríkisstjórnar. Ég er ekki alveg viss um að fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafi á þessum tíma — og reynsluleysi er að sjálfsögðu skýringin — gert greinarmun á rekstrarafkomu og greiðsluafkomu. Við erum að tala um áætlun sem Ríkisendurskoðun hefur farið yfir um greiðsluafkomuna á þessu ári og hún er betri en gert var ráð fyrir í áætluninni sem fylgdi fjárlögunum. Það hlýtur að segja okkur góðar fréttir frekar en hitt. Að sjálfsögðu verðum við svo að sjá hvernig daufari hagvaxtarhorfur sem hafa farið versnandi, alveg sérstaklega eftir að þessi ríkisstjórn tók við, (Gripið fram í.) samanber það sem segir í nýrri hagspá Alþýðusambands Íslands, eiga eftir að hafa áhrif til hins verra.

Þetta mundi ekki benda til annars en að frávikið gæti orðið innan mjög (Forseti hringir.) ásættanlegra marka, að mínu mati, ef ekki kæmi annað til.