143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og þessa yfirferð sem ég tel að sé til mikils sóma að gefa okkur tíma til að ræða.

Hér hefur auðvitað verið farið mjög vítt og breitt yfir efnisleg atriði málsins en mig langar til að nota tíma minn til að ræða aðeins, a.m.k. til að byrja með, formlega stöðu viðfangsefnisins. Hæstv. ráðherra hefur raunar líka kallað eftir því að við fjölluðum um það hver væru næstu skref og ég held að það sé mjög mikilvægt.

Það er mjög mikilvægt í því samhengi að halda því til haga að niðurstaða nefndarinnar sem um ræðir var einróma. Hún var einróma og mótatkvæðalaus og fengin fram í stórum hópi fulltrúa allra þingflokka og hagsmunaaðila, þar með talið umhverfisverndarsamtaka. Það er því óvenjulega breið samstaða um þá niðurstöðu sem hér er í hendi.

Það er eftir því tekið í umræðunni sem hefur farið fram að menn eru með mismunandi áherslur og það ekki endilega eftir flokkslínum. Þá vil ég sérstaklega nefna hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem orðaði það svo að vonandi færi fljótlega að fjara undan umræðunni um þennan orkustreng. Á dögunum fór fram umræða í óundirbúnum fyrirspurnatíma við hæstv. forsætisráðherra um þetta sama viðfangsefni og þá segir forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Hvað varðar spurninguna um sæstreng og þá skýrslu sem hv. þingmaður nefndi stendur að sjálfsögðu til að halda áfram því samráði sem lagt hefur verið upp með við úrvinnslu þeirra mála. Þar þarf ekki hvað síst að líta til þess hver áhrifin yrðu á lagningu sæstrengs hér innan lands, t.d. áhrif á verð til neytenda á Íslandi og áhrif á möguleika okkar á að skapa störf innan lands.“

Virðulegi forseti. Það er mjög skýr afstaða forsætisráðherra sem kemur fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma um það hvað hann telur rétt að séu næstu skref í þessu yfirgripsmikla viðfangsefni, þ.e. að halda áfram breiðu faglegu og pólitísku samstarfi og skoðun á kostum og göllum þessa stóra viðfangs- og umræðuefnis. Ég tel rétt að æskja þess sérstaklega við umræðuna að hæstv. ráðherra geri grein fyrir afstöðu sinni hvað varðar þá þverpólitísku nálgun sem var farin á síðasta kjörtímabili því að forsætisráðherra er þeirrar skoðunar að þeirri leið beri að halda áfram.

Ef við víkjum síðan að efnislegum þáttum málsins er það afstaða okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að í grunninn sé mikilvægast að flýta sér hægt. Það er gríðarlega margt sem er eftir að skoða í þessum efnum. Það er ekki hægt að komast lengra á grundvelli þeirra gagna sem hér eru þótt þau séu ítarleg. Það þarf meira til. Það eru fleiri spurningar sem þarf að svara. Það dugar ekki að setja framtíðarsýnina í hendur Landsvirkjunar eða Landsnets. Stjórnvöld, ráðuneytið, kjörnir fulltrúar, hagsmunaaðilar, náttúruverndarsamtök þurfa líka að setja sig inn í þetta flókna viðfangsefni. Það dugar ekki að einstakir talsmenn eða umboðsmenn þjóðarinnar, hvort sem þeir hafa formlegt umboð til þess eða ekki, séu að leita hófanna gagnvart meintum fjárfestum. Við verðum að horfa til þess að þetta er sameiginlegt, gríðarlega stórt og umfangsmikið hagsmunamál.

Þá komum við í raun og veru að spurningunni um hvort hægt sé að nýta bara umframorkuna. Það er sú umræða sem við höfum verið að reyna að tala út frá. Er hægt að ná einungis varaaflinu og toppaflinu? Er það í raun og veru það sem við erum að tala um? Það er helsta röksemdin að við þurfum svo mikið af öryggisafli að við getum komið umframafli í verð og gætum fengið betra verð með því móti en innan lands. Það eru grunnrökin fyrir þessu. Á móti eru síðan rökin um hvaða áhrif þetta hefur á innanlandsverðið og á afhendingaröryggi orkunnar innan lands og ekki síst hvort umframorkan dugi þá til að svala þeirri þörf sem verður til með slíkri framkvæmd, eða stendur til að virkja meira í þágu slíkra verkefna? Þá segja menn að jafnaði já. Þannig er það. Við þurfum meiri orku og við þurfum meiri virkjanir til að svala þeirri þörf.

Menn hafa verið að tala um vind og menn hafa verið að tala um vatnsorku á Norðurlandi og Suðurlandi. Við höfum lagt áherslu á það í aðkomu okkar að þessari umræðu að öll sú umfjöllun sé í takt við umfjöllun um virkjunarkosti rammaáætlunar. Kjarni málsins er sá að með niðurstöðu nefndarinnar og þeirri skýrslu sem er til umfjöllunar er í raun og veru slegin af sú umræða sem var lengst af í gangi, af hendi Landsvirkjunar og fleiri aðila, um að þetta sé gríðarlega hagkvæmt án spurningarmerkja, þetta sé gríðarlega hagkvæmt án þess að það þurfi nokkurn hlut að velta því fyrir sér. Það er ekki hægt að fullyrða að þetta sé gríðarlega hagkvæmt. Það er kjarni málsins. Enginn veit það. Síðar þarf að taka afstöðu til þess ef þetta skilar einhverju, hvaða leiðir við eigum þá að fara í því að tryggja að um verði að ræða það að rentunni verði skilað eða ávinningnum verði skilað til þjóðarinnar eða samfélagsins.

Það er mikilvægt að magna ekki upp óraunhæfar væntingar í umræðu sem þessari, að horfa fram á veginn af bjartsýni en auðvitað fyrst og fremst af raunsæi og halda því ekki fram að um sé að ræða ótakmarkaða orku sem hægt verði að nýta bæði til gríðarlegrar uppbyggingar og stóriðjuuppbyggingar innan lands og líka að nema lönd í stórum stíl hinum megin við hafið, að við göngum hægt um gleðinnar dyr, að við gleymum okkur ekki í hefðbundinni gullgrafarastemningu í þessu frekar en öðru. Það hefur ekki verið gæfulegt þegar þessi ágæta kappsama þjóð hefur fetað þá braut.

Mig langar hér í lokin, virðulegi forseti, að vitna í Ómar Ragnarsson, í bloggið um þessi mál þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Því gæti hærra orkuverð um sæstreng hreinlega valdið því að vaðið yrði í skefjalausar virkjanaframkvæmdir með tilheyrandi spjöllum á einstæðri íslenskri náttúru á sama tíma og mestu orkubruðlarar heims, Bandaríkjamenn, líta á hliðstæð náttúrufyrirbæri eins og Yellowstone sem „heilög vé“ sem ekki verði snert, þrátt fyrir þar sé að finna langmestu samanlagða jarðvarma- og vatnsorku í allri Norður-Ameríku og að gildi Yellowstone sem náttúruverðmætis sé minna en hinna íslensku verðmæta.“