143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er von að spurt sé í hvaða veruleika Seðlabankinn búi vegna þess að oft hefur verið talað um stýrivaxtalækkanir Seðlabankans. Ég ætlaði svo sem ekki að tala um það, en stundum hefur mér þótt Seðlabankinn og þeir sem þar eru búa í einhverjum sýndarveruleika sem er okkur hinum hulinn.

Ég ætlaði að tala um auglýsingu sem birtist frá Ríkisútvarpinu í gær og gekk eiginlega algjörlega fram af mér. Ég geri mér fulla grein fyrir því sem þingmaður að ég hef kannski lítið sem ekkert um það að segja. Þar er auglýstur nýr sjónvarpsþáttur og sýndir peningar í bunkum sem veita á sem verðlaun af hálfu Ríkisútvarpsins til þeirra sem hugsanlega geta svarað einhverjum spurningum rétt. Á meðan við sem höldum um fjárveitingavaldið erum að reyna að draga saman í ýmsum þáttum í útgjöldum ríkisins auglýsir Ríkisútvarpið, sem er með nefskatt af hálfu löggjafans og fær fram fé sem er á fjórða milljarð, í sjónvarpinu í gær á sínum auglýsingatíma þennan verðandi þátt og ég held að verðlaunaféð sé 10 milljónir.

Virðulegur forseti. Ekki veit ég hvaðan þetta fé á að koma en eitt veit ég; kostun er ekki leyfð í Ríkisútvarpinu. Ætlar Ríkisútvarpið að taka þessar 10 milljónir af skattfé almennings til að veita svo einhverjum sem svarar spurningum rétt? Ef þetta er svona er það með ólíkindum. Á sama tíma og leitað er í hverju skúmaskoti eftir krónum til að fjármagna ýmsa þætti ætlar stofnun sem er rekin af skattfé almennings að fara fram með þessum hætti.

Oft hefur mér þótt ýmsu ábótavant hjá mínu ágæta Ríkisútvarpi en auglýsing þess í gær um eigin þátt gekk algjörlega fram af mér og ég vona að það verði umræða í þá veru að af þessu verði ekki.