143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segir að fjármögnun fjárfestingaráætlunar hafi ekki skilað sér. Ég hef bara aldrei heyrt annað eins. Ástæðan fyrir því að veiðileyfagjöldin skila sér ekki er sú að þessi ríkisstjórn ákvað að afþakka stóran hluta þeirrar fjármögnunar. Það er ekki rétt að arður úr bönkum sé til dæmis ekki að skila sér. Var ekki auglýsing nýverið frá Landsbankanum þar sem hann fer að greiða til ríkisins 10 milljarða í ár? Það er það hæsta mögulega sem áætlanir fyrri ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir hvað varðaði arðgreiðslur úr þeim banka.

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt með farið hjá hæstv. fjármálaráðherra að áætlunin hafi ekki verið fjármögnuð. Hann verður að fara að koma með aðrar og betri skýringar á því að menn ætli ekki að fara leiðirnar sem ákveðið var að fara í fjárfestingaráætlun til að örva atvinnulífið. Við skulum þá ræða það á þeim nótum, það er miklu heiðarlegra en að koma með svona málflutning eins og hér var gert.

Fráfarandi ríkisstjórn tók þá ákvörðun að setja fjármuni frá veiðileyfagjaldi, arði úr bönkum og annað slíkt fé sem kom til vegna þess að við þurfum sárlega á að halda framtíðarsýn til lengri tíma hér á landi. Þetta var hluti af því að byggja, eins og bent var svo vel á í McKinsey-skýrslunni, undir fjölbreyttan útflutning, byggja undir atvinnulíf framtíðarinnar sem byggir á fjölbreyttum aðferðum við gjaldeyrisöflun sem okkur vantar líka sárlega hér á landi.

Hæstv. ráðherra segir hér: Ef við sleppum þessu öllu, lækkum skatta um þúsundkall á millitekjufólk gerist þetta vonandi sjálfkrafa. Það er ekki svoleiðis, það mun ekki gerast sjálfkrafa. Við erum í gegnum Tækniþróunarsjóð að styðja við fjölmörg góð verkefni og höfum góða reynslu af honum til dæmis, svo eitt dæmi sé tekið, 75% af öllum styrkjum sem fara út úr Tækniþróunarsjóði skila sér í frumgerðum sem (Forseti hringir.) síðan verða að verðmætum síðar meir fyrir land og þjóð, bara svo eitt dæmi sé tekið.

Þarna er verið að kasta (Forseti hringir.) á glæ tækifæri til vaxtar hér á landi.