143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra er þrástef sem kemur fram ítrekað í textanum svo oft að vart verður tölu á komið þar sem sagt er að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sé ófjármögnuð.

Þetta er rangt.

Áætlunina átti að fjármagna með sérstöku veiðigjaldi sem hefði skilað 6,4 milljörðum ef núverandi ríkisstjórn, þ.e. þessi ríkisstjórn sjálf, alveg sjálf, hefði ekki afsalað sér þeim tekjum í sumar sem leið. Arðgreiðslur hafa auk þess gengið eftir og skilað ríkissjóði á annan tug milljarða. Það er rangt að áætlunin hafi verið ófjármögnuð. Það er svo einfalt. Hið rétta er að önnur forgangsröðun hefur tekið við. Ný pólitík hefur tekið við. Við skulum ræða það á þeim grunni eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur.

Fjárfestingaráætlunin snerist um að snúa vörn í sókn. Það var það sem hún snerist um. Hugsunin var að efla vaxtarsprota atvinnulífsins og sérstaklega þá sem mest þurfa á því að halda. Rannsóknasjóður var efldur, Tækniþróunarsjóður sömuleiðis, verkefnasjóðir skapandi greina o.s.frv. Verkefnin snerust öll um sókn, snerust öll um framtíðarsýn, von og kraft fyrir Ísland, um að glæða von, sinna sprotum, rækta frumkvæði og hugvit fyrir allt samfélagið.

Fjárfestingaráætlunin núna er nánast slegin af. Meðal annars hafa sóknaráætlanir landshlutanna, þverpólitískt öflugt verkefni, verið skornar niður um 96%. Svo virðist sem þeirri reglu hafi einfaldlega verið fylgt að allt sem kom frá fyrri ríkisstjórn skyldi slegið af. Þetta er ekki stefna, þetta er nauðhyggja.

Forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar er dapurleg, að engin sókn skuli vera til staðar, engin framþróun, engin von. Við þurfum á frumkvæði, sköpun og hugviti að halda fyrir Ísland inn í kraftmikla framtíð. Þar liggja áherslur nýrrar ríkisstjórnar því miður ekki. Því miður.