143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið málefnaleg. Ég vil fyrst segja varðandi skapandi greinar að það er ekki verið að slá af allan stuðning við skapandi greinar, þvert á móti, það er reynt að halda uppi stuðningi við þær eins og hægt er. Tækniþróunarsjóður hefur verið á uppleið ef við skoðum þótt ekki sé nema þriggja eða fjögurra ára meðaltal en kannski ekki miðað við árið 2013 vegna þess að sama hvort menn vilja trúa því eða ekki var fjárfestingaráætlunin ekki fjármögnuð.

Arðgreiðsluáætlun hefur verið lækkuð um 5 milljarða. Það er enginn söluhagnaður að koma í ríkiskassann. Sóknaráætlunina átti að fjármagna með leigukvóta. Það var aldrei lögfest. Það áttu að fara 1.200 milljónir ár eftir ár í það verkefni en það var aldrei klárað, það er enginn leigukvóti.

Svona gæti ég haldið áfram.

Ég er ekki byrjaður að minnast á almennu tekjuforsendurnar. Þær hafa líka hrunið. Hagvöxturinn skilar sér ekki. Við erum með yfir 20 milljarða gat bara út af því. Svo segja menn að þetta sé allt fullfjármagnað. Ef þetta var fullfjármagnað og við erum ekki að fara í verkefnin, hvers vegna erum við ekki að skila glimrandi fínum afgangi? Ég hélt að menn hefðu verið sammála um að reyna að gera þetta þannig að menn mundu samt sem áður halda jafnvægi. Þetta er nefnilega ekki alveg svona einfalt.

Hér koma menn og segja: Ja, þið kastið frá ykkur nokkrum milljörðum sem við hefðum tekið á næsta ári í veiðigjöld. Þarna erum við komin að ákveðnu grundvallarvandamáli sem þingið hefur skapað á undanförnum árum, því grundvallarvandamáli að umræðan um veiðigjöld er orðin gjörsamlega prinsipplaus. Menn sögðu bara: Hvað þurfum við mikið? Stillum veiðigjöldin miðað við það sem við þurfum. Okkur langar til að setja meira í skapandi greinar, einhver verkefni, og þá bara tökum við það í veiðigjöldum.

Má ég biðja um málefnalega umræðu um veiðigjöld? Hvað er eðlilegt að taka af útgerðinni? Hvaða arð er verið að skattleggja? Ég kalla eftir því að við förum að taka (Forseti hringir.) þessa umræðu aftur á grundvelli þess að það sé að verða einhver (Forseti hringir.) viðbótarhagnaður, að við séum að tala um auðlindarentu en ekki bara hvað við vildum setja í fjárfestingaráætlun. (Forseti hringir.) Þegar við förum að taka umræðuna á þessum grundvelli held ég að menn muni mjög fljótt sjá að áform um veiðigjöld til framtíðar voru mjög óraunhæf.