143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hlusta alltaf af mikilli athygli á hv. þm. Pétur Blöndal þegar hann fjallar um skuldamálin. Ég heyri á honum að hann vill fara fram í þessu máli með réttlæti að leiðarljósi, ekki sé verið að mismuna ólíkum hópum. Hann talar sérstaklega um leigjendur og um þau 21% sem eru í skuldlausu húsnæði. Auðvitað skiptir þetta máli vegna þess að það sýnir okkur þau sjónarmið sem eru uppi innan stjórnarflokkanna í þessum efnum og innan stjórnarmeirihlutans þegar kemur að þessum svokölluðu skuldaleiðréttingarmálum.

Mér finnst það alltaf vera mikið áhyggjuefni þegar stjórnmálamenn fara að lofa heimsmetum í hinu og þessu. Mér fannst það áhyggjuefni þegar hæstv. forsætisráðherra boðaði hér í þinginu umfangsmestu aðgerðir í málefnum skuldugra heimila. Mér finnst það líka áhyggjuefni þegar formaður Samfylkingarinnar kemur hingað upp í ræðustól og segist eiga heimsmetið vegna þess að þetta er í raun og veru ekki einhver keppni um hver sé mesti vinur heimilanna. Um það snýst ekki málið. Það snýst um það sem hv. þm. Pétur Blöndal talaði um áðan, að fara yfir stöðuna, afla gagna og sjá hvar skórinn kreppir, hvað hægt er að gera og hvað þarf að gera.

Það er auðvitað alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að það eru örlitlir hlutir eins og snjóhengjan, verðbólgan og verðtryggingin sem þarf að lagfæra. Við erum reyndar ekki sammála um hvaða leið er best út úr þeim vanda sem blasir við í þeim efnum, en ég er einn þeirra sem telja það einsýnt að það sé gjaldmiðillinn sem skiptir hvað mestu máli. Íslenska krónan hefur reynst okkur ákaflega kostnaðarsöm, sú örmynt sem þessi litla þjóð hefur ákveðið að hafa sem gjaldmiðil. Það er náttúrlega vandi sem þarf að taka á sérstaklega. Það verður nefnilega ekki auðvelt fyrir ríkisstjórnina að uppfylla það loforð sitt að vera með umfangsmestu aðgerðir í þágu skuldugra heimila í heiminum. Það er heldur ekki neitt sérstakt keppikefli að mínu mati og er ekki gott fyrir, held ég, íslenskt samfélag að það sé áherslan.

Besta leiðin og raunar eina leiðin til að ráðast á þann vanda sem við blasir með réttlátum hætti væri að láta hvert mannsbarn í landinu hafa 1 milljón, sem eru 300 milljarðar. Þá deilist það réttlátlega milli ólíkra hópa. Það er ekki ósvipað og hugmynd hv. þm. Péturs H. Blöndals í sjávarútvegsmálum sem vildi bara deila kvótanum á milli allra landsmanna. Þá færi meira inn á mannmörg heimili o.s.frv. Það verður nefnilega mjög erfitt að uppfylla þetta á réttlátan hátt.

Við vorum á fundi efnahags- og viðskiptanefndar um daginn með gesti úr Seðlabankanum sem sýndu okkur það sem við vitum, að þeir sem skulda mest eru ekki í mestum greiðsluvanda. Þeir sem skulda mest eru með hæstu launin og eru með mestu eignirnar. Það eru ekki þeir sem þurfa á því að halda að fá niðurfellingu höfuðstóls. Það þarf að mæta þeim sem eru í mestum greiðsluvanda, þ.e. þeim sem eru með yfirveðsettar eignir. Það þarf að koma til móts við þá. Besta leiðin til að koma til móts við það fólk sem skuldar meira en það á er að á Íslandi sé heilbrigður húsnæðismarkaður sem lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar, þar sem verðmyndunin er með eðlilegum hætti og fólk getur ef það skuldar of mikið minnkað við sig. Grundvallaratriðið í samfélagi okkar er að hver einstaklingur fyrir sig ber ábyrgð á sínum skuldum. Það er sjónarmið sem við verðum að hafa í heiðri og fylgja, ekki bara út af því að það er réttlæti heldur vegna þess að annað mundi reynast okkur alveg gríðarlega kostnaðarsamt til framtíðar litið.

Við tókum hér umræðu í gær um fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar. Ég spurði þar sérstaklega eftir áætlun ríkisstjórnarinnar í því að efla fjárfestingu, auka hagvöxt, auka fjölbreytni í atvinnulífinu, búa til meiri samkeppni, búa til heilbrigðara efnahagskerfi. Því miður voru svörin þau að það er ekkert plan. Búið er að kasta fjárfestingaráætluninni út. Það er miður vegna þess að þar inni voru gríðarlega góðar hugmyndir sem margar hverjar voru rannsakaðar í þaula, sóknaráætlun landshluta o.s.frv. Það er auðvitað þannig að hægt er að sækja fjármuni í slíka áætlun einfaldlega ef vilji væri til. Þær aðgerðir, þ.e. að örva fjárfestingu og efla hagvöxt á landinu, eru þær aðgerðir sem til lengri tíma litið gagnast íslenskum fjölskyldum og íslenskum heimilum langbest. Þetta eru engin sannindi sem eiga að koma þingmönnum á óvart. Þetta vita menn og eru auðvitað sjónarmið sem ganga í gegnum ekki bara minni hlutann eða Sjálfstæðisflokkinn heldur líka innan Framsóknarflokksins.

Við í Bjartri framtíð vorum mjög ánægð með þann fjölda vinnuhópa sem ríkisstjórnin ætlaði að setja af stað af þessu tilefni, ekki vegna þess að við værum fylgjandi almennri niðurfellingu lána heldur vegna þess að okkur finnst skipta máli að vinnubrögðin séu vönduð, að ekki sé verið að ana út í neitt, að hið svokallaða strax geti verið teygjanlegt í þessum efnum þannig að menn vandi sig virkilega. Þess vegna studdum við þá þingsályktunartillögu.

Ég sé það á þeim skeytum sem ég fæ innan úr Stjórnarráðinu sem þingflokksformaður Bjartrar framtíðar að enn er verið að skipa starfshópa og starfsteymi víðs vegar í stjórnsýslunni. Vinnuáætlun ríkisstjórnarinnar, þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um þessar aðgerðir gerði ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra mundi flytja áfangaskýrslu í upphafi haustþings. Við erum núna á miðju haustþingi og reiknað er með að hann flytji aðra skýrslu í upphafi vorþings. Það sýnir að viðfangsefnið er stærra en menn gerðu sér kannski grein fyrir. Það sýnir líka að menn eru í raun og veru að vanda sig. Ég vona að það verði það keppikefli og það leiðarljós sem menn hafi að markmiði í þessu vegna þess að það mun reynast okkur ákaflega kostnaðarsamt til langs tíma litið ef menn vanda sig ekki virkilega í þeirri vinnu sem fram undan er. Það er engum til framdráttar ef menn fara í einhvers konar keppni um að eiga heimsmetið í að vera vinur heimila á Íslandi.