143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:53]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir hlý orð í garð Framsóknarflokksins. Ríkisstjórnin hefur tekið sér stöðu með heimilunum og vill forgangsraða í þágu þeirra enda heimilin undirstaða þjóðfélagsins. Kosningabarátta okkar gekk út á tillögur til að hjálpa skuldsettum heimilum sem höfðu ekki fengið úrlausn sinna mála eftir fjármálahrun.

Erlend lán hafa verið lækkuð á grundvelli dómstóla og innstæður fjármagnseigenda tryggðar. Nú er komið að heimilunum í landinu sem urðu fyrir gríðarlegu tjóni vegna hrunsins og verðbólgu sem því fylgdi. Eitt það mikilvægasta í þessari vinnu er að sett var á fót stefnumótunaráætlun. Þingsályktun í anda stefnumótunar var eyrnamerkt ábyrgð ráðherra og tímasett eins og stefnumótun á að vera.

Virðulegi forseti. Mig langar að endurtaka stuttlega tíu liða aðgerðaáætlun forsætisráðherra því það er gaman að tala um það sem gengur vel. Fyrst er leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána eins og forsætisráðherra fór yfir hér áðan. Nefnd sérfræðinga til að takast á við flókið ferli framkvæmda og laga skilar í lok þessa mánaðar eins og legið hefur fyrir í allt sumar. Væntingar í þessu máli hafa farið langt fram úr öllu, það sem átti að leiðrétta dagana eftir kosningar. En til að vera raunsær þurfa fjármálafyrirtækin tíma til að taka inn framkvæmdir líkt og með erlendu lánin enda ekkert sambærilegt fordæmi í heiminum sem við vitum um. Íslensk heimili geta samt sem áður farið að máta sig inn í framkvæmd leiðréttingarinnar í jólamánuði.

Fleiri liðir eru á ábyrgð hæstv. forsætisráðherra. Úttekt á kostum og göllum leiðréttingarsjóðs vegna húsnæðislána, eins og hann fór yfir, og tillögur sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar við lok þessa árs. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir hefur skipað 32 manna starfshóp um framtíðarskipan húsnæðismála sem vinnur að því að skila tillögum í upphafi næsta árs. Auk félags- og húsnæðismálaráðherra vinnur innanríkisráðherra að því að koma yfirskuldsettum íbúðum undan gjaldþroti en einnig vinna ráðherrarnir að tillögum til að aðstoða eignalausa einstaklinga til að greiða gjaldþrotaskipti á búi sínu.

Hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir kom með frumvarp um flýtimeðferð dómsmála í þágu skuldsettra heimila og var það lögfest í gær.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson hefur lagt fram frumvarp um endurskoðun stimpilgjalds og einnig um að vinna úr tillögum sérfræðihóps um mögulegt gjald á fjármálafyrirtæki.

Tíundi liðurinn er frumvarp um breytingar á lögum um Hagstofuna sem varð að lögum í september sl. en mikilvægt er fyrir stjórnvöld að fylgjast með fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja og áhrifum aðgerðaáætlunarinnar. Eins og sést þá miðar vinnunni vel, hún er á áætlun og ríkisstjórnin er einhuga í málinu. Við ætlum að leiðrétta skuldir íslenskra heimila, afnema verðtryggingu og í framhaldi að losa gjaldeyrishöft.

Ég ákvað að tæpa aðeins betur á aðgerðaáætluninni því síðan daginn eftir kosningar hefur verið barið á okkur úr öllum áttum, sumt réttmætt og málefnalegt en annað því miður tilbúningur og rangtúlkun sem er ekki mjög íþróttamannslegt. Ég vil taka undir það með hv. þm. Róberti Marshall að þetta eigi ekki að vera keppni heldur næsta verkefni þingsins. Markmið ríkisstjórnarinnar er ekki að slá heimsmet fyrri ríkisstjórnar heldur að bæta og vænka hag íslenskra heimila í landinu. Þá kemur upp gamall hópíþróttafrasi: If you can´t beat them join them. Ég biðla til allra þingmanna, hvar sem þeir standa í flokki, að koma með okkur og vinna fyrir heimilin. Þau þurfa á því að halda.