143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar að lýsa því yfir að fundarstjórn forseta er með hreinum ágætum, hann stendur sig mjög vel í því að stýra þessum ágæta fundi. Ég tel að það hafi skipt miklu máli að hæstv. forsætisráðherra hafi gefið okkur, þingmönnum þjóðarinnar, skýrslu um framgang mála um skuldavanda heimilanna. Hér hefur verið kallað eftir því, m.a. af hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa tjáð sig í dag, að fá betri upplýsingar. Það er gert þrátt fyrir að við höfum á sumarþingi samþykkt þingsályktunartillögu þar sem ferli þessara mála ætti að vera öllum ljóst, þrátt fyrir að mönnum sé frjálst að lesa stjórnarsáttmálann sem ég las meðal annars upp úr í minni ræðu til að upplýsa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar um hvað standi til og hver stefna ríkisstjórnarinnar er.

Ég tel að þessi umræða í dag hafi verið með hreinum ágætum og ég geri því engar athugasemdir við fundarstjórn hæstv. forseta.

(Forseti (ÞorS): Forseti þakkar hlý orð í sinn garð.)