143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú tel ég rétt í ljósi orða hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur að benda á að sú sem hér stendur sat þessa tvo klukkutíma og hlustaði á umræðurnar ólíkt þeim ráðherrum sem bera ábyrgð á stjórn landsins og létu sig vanta svo áberandi var af hálfu Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu.

Það væri kannski ráð að hv. þingmaður tæki ekki ræðu sem þessa sem hér fór á undan í ræðustól Alþingis heldur á eigin þingflokksfundum. Þá vil ég benda á, úr því að talið berst að skyldum þingmanna í ljósi þeirra umræðna sem fóru fram áðan um fundarstjórn forseta og fjarveru umhverfisráðherra héðan úr þinginu vikum saman, að það er jafnvel svo að ráðherrar nenna ekki að mæta í fyrirspurnatíma en hanga frammi í sölum á meðan. Ég held að hv. þingmaður ætti að ræða við stjórnarliða og fara yfir þeirra venjur hér gagnvart (Forseti hringir.) þingsalnum og láta vera að dylgja um mig. (Gripið fram í: Dylgja?) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)