143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

innheimta dómsekta.

151. mál
[16:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og að taka þetta mál upp hér á þingi. Þeirri formlegu spurningu var beint til mín hvort ráðherra tæki undir sjónarmið í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá október 2012. Já, ég tek undir þau sjónarmið. Ég held að það sé enginn vafi á því að við verðum að gera betur. Við verðum að huga að því hvernig við gerum það. Auðvitað verðum við alltaf að horfast í augu við það að eitthvað af þessu fjármagni mun ekki innheimtast en miðað við þær tölur sem eru útistandandi er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður benti á, að við verðum að gera betur.

Það er allt rétt sem kom fram í máli þingmannsins. Í undirbúningi er frumvarp um fullnustu refsinga þar sem meðal annars er tekið tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar sem fram koma í skýrslunni sem farið var yfir áðan. Um er að ræða, líkt og hv. þingmaður nefndi, tillögur um launaafdrátt, auknar heimildir fyrir innheimtuaðila til að afla upplýsinga um fjárhagsstöðu skuldara o.s.frv.

Staðan í verkefninu nákvæmlega núna — því að að því er spurt — er sú að í ráðuneytinu er verið að fara yfir einstök ákvæði frumvarpsins en ráðherra, þ.e. sú sem hér stendur, hefur ekki tekið afstöðu til einstakra þátta í því. Ég óskaði eftir því þegar ég kom í ráðuneytið að fá tækifæri og tíma til að fara betur yfir þetta verkefni þannig að miðað hefur verið við að leggja frumvarpið fram í byrjun árs 2014. Það er það tímaviðmið sem núna er viðhaft og við vinnum út frá í ráðuneytinu.

Ég þarf ekki að nefna það, ég veit að hv. þingmaður og þingheimur er vel upplýstur um það, að sektir og sakarkostnaður sem er útistandandi á Íslandi er mjög hár og við verðum að ná árangri við að innheimta það fé. Það getur sannarlega skipt máli til þess að endurheimta fjármagn sem ríkissjóður hefur lagt út í formi sakarkostnaðar.

Síðan er spurt að því hvernig ráðherra hyggist fylgja eftir þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni. Ég lít svo á að ég hafi svarað því í fyrri spurningunni með því að útskýra hver staðan er á frumvarpi til nýrra laga um fullnustu refsinga, sem er til skoðunar. Ég þreytist aldrei á að nota tækifærið þegar við erum að ræða um mál er tengjast þessu að nefna mikilvægi þess að nýtt fangelsi rísi á Hólmsheiði og okkur takist þannig að vinna aðeins betur að því að fjölga afplánunarrýmum og auka sveigjanleika sem getur leitt til þess að hægt verði að nýta fleiri fangarými undir vararefsingu fésekta svo að það komi líka fram.

Síðan varðandi það hvort eðlilegt sé eða æskilegt að hægt sé að fullnusta fésektir vegna skattalagabrota með samfélagsþjónustu, þá er það hægt samkvæmt gildandi lögum. Þar er ekki gerður neinn greinarmunur á fullnustu fésekta eftir brotaflokkum. Ég verð að segja það með mikilli virðingu fyrir umræddri skýrslu og þeim áhyggjum sem þar koma fram um fyrirkomulag og þýðingu samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræðis að mér finnst aðeins bera á því að menn sjái ekki kostina í því úrræði. Oft er gert lítið úr úrræðinu og látið eins og menn taki það ekki alvarlega. Reynslan sýnir okkur annað. Ég held að við verðum að átta okkur á því að þetta er einn af þeim þáttum í úrræðum hvað þetta varðar sem við verðum að byggja á. Það er oft og tíðum skynsamlegt að beita samfélagsþjónustu ef kostur er og losa samfélagið þannig við þær neikvæðu afleiðingar sem fangelsisvist getur haft og hefur oft í för með sér. Auk þess sem á það hefur verið bent að endurkomutími þeirra sem sinna samfélagsþjónustu er mun minni en annarra.

Síðan er spurt, eðlilega, hvað stjórnvöld áætli að innheimtist af fésektum vegna skattalagabrota á árinu 2014. Ég verð því miður að upplýsa þingmanninn um það að innheimta sekta er ekki og hefur ekki verið flokkuð eftir brotaflokkum og því er ekki hægt að ná út úr innheimtukerfinu upplýsingum um einstök brot. Þess vegna get ég ekki svarað þingmanninum án þess að fram fari sérstök úttekt á því og vinna í kringum það. Það er ekki hægt að áætla innheimtu á fésektum vegna skattalagabrota á árinu 2014. Það er auðvitað nokkuð sem við þurfum að huga að í kerfinu, að við getum ekki greint þessar upplýsingar svo auðveldlega nema farið sé í sérstaka greiningu þar á.