143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[15:57]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir þetta tímamótafrumvarp og tek glaður við því verkefni að vinna að þessum breytingum í allsherjar- og menntamálanefnd. Mér finnst það til fyrirmyndar að þarna séum við komin með frumvarp sem nær mörgum markmiðum í einu, þ.e. að efla landsbyggðina um leið og við aukum þjónustu við íbúana og hagræði í stjórnsýslunni.

Þetta er viðamikið frumvarp og tekið á mörgum málum, greinilega mikil vinna sem hefur farið í það. Því langar mig til að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort það sé verið að vinna áfram að frekari breytingum í ráðuneytinu. Eru jafnvel einhverjar litlar stofnanir sem ráðuneytið gæti tekið við verkefnum af sem gæti aukið hagræði á þann veginn líka? Er einhver vinna á milli ráðuneyta um að samnýta verkefni þeirra? Hér erum við að samnýta stofnanir undir sama ráðuneytinu — er einhver vinna á milli ráðuneytanna við það? Mig langaði að fá að vita það.