143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:48]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir umræðuna. Ég tek undir með hv. þingmanni og legg áherslu á að fólk óháð búsetu eigi að nota skilgreinda heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Fyrsta skrefið er auðvitað að skilgreina: Hvað er grunnþjónusta? Er það hluti af grunnþjónustu að hafa aðgang að skurðstofu í heimabyggð? Er það hluti af grunnþjónustu að hafa aðgang að sálfræðingi eða geðlækni í heimabyggð? Er það hluti af grunnþjónustu að hafa ungbarnaeftirlit í heimabyggð? Ég hefði haldið það.

Þetta er allt eitthvað sem þarf að skilgreina og er svolítið á floti og á reiki. En það er okkur þarft og skylt, sem þingmenn, að láta okkur þessa hluti varða og ég hvet okkur öll áfram í því. En það hlýtur að vera fagaðila að meta læknisfræðilegar forsendur, hvort þjónustan sé krítísk fyrir sjúklinginn og hvort og hvar henni sé ábótavant. Það er okkar hins vegar að taka stöðuna og gera eins vel og efni standa til. Það væri auðvitað best að við hefðum efni á að hafa spítala í hverju byggðarlagi en við búum ekki svo vel, því miður. Við þurfum umfram allt að gæta sanngirni en jafnframt hagkvæmni. Ljóst er að hagkvæmast er að hafa starfseiningar sem sinna flókinni þjónustu og eru dýrar í rekstri á fáum stöðum þar sem við samnýtum sérfræðinga og tæki og þar sem sérfræðingar fá líka nógu mörg tilfelli á ári til að viðhalda þekkingu og færni. Við þurfum að hugsa þetta heildrænt. Grunnþjónustan í heimabyggð þarf að vera til fyrirmyndar einmitt í því skyni að grípa fólk fyrr og minnka þannig kostnað í fíngreiningum heilbrigðiskerfisins.

Staðreynd málsins er sú að heilsugæslan, sem við viljum að sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga, er víða ekki í lagi. Það er fyrsta mál á dagskrá. Hlutverk hennar þarf að víkka og þar þarf að mínu viti að fjölga sérfræðingum og efla hlutverk starfsstétta eins og hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og annarra sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna varðandi forvarnir til að minnka álagið á dýrari stigum.