143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:29]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem hér fer fram. Hún er þörf og hér hafa komið fram margar góðar ábendingar sem ég tek heils hugar undir. Það er ekki á vísan að róa þegar síldin er annars vegar. Hún er kenjóttur fiskur og hefur hvorki boðað komu sína né kvatt þegar hún hefur farið þannig að við þurfum aðeins að horfa á það í því ljósi að upp úr miðri síðustu öld stóðu skipstjórnarmenn í bassaskýlum til að reyna að finna hana vaðandi í sjónum. Hún sá við því og þá fann hana Eggert Gíslason í astekinu. Síðan kemur hún vaðandi í fangið á okkur inni í Kolgrafafirði. Það eru ýmsar leiðir sem hún hefur valið sér til samstarfs við okkur.

Mikilvægast af öllu er að finna leiðir til að koma í veg fyrir svona slys og nánast náttúruhamfarir sem gerast þegar 50 þús. tonn af síld ganga á land og verða að kostnaði í staðinn fyrir að verða þau verðmæti sem þau eiga að vera. Við þurfum ef til vill að finna leiðir til að gera þetta að verðmætum í stað hins endalausa kostnaðar sem þessu getur fylgt. Ég held að það verði erfitt að beisla náttúruna þegar hún kemur. Maður veltir fyrir sér hvort það geti verið hvalir sem reka hana inn fjörðinn. Hér hefur komið fram að háhyrningar gætu átt sinn þátt í þessu. Það er löngu vitað að hvalir hafa smalað fiskum saman og ráðist á þá. Þeir beita lofttækni. Hugvitsmenn hafa talað um það, og ég hef sagt það í þessari pontu hér áður þegar þessi umræða var, að það væri jafnvel hægt að fæla síldina frá með því að leggja rör og dæla lofti í þau. Þannig myndast loftbólur og það fælir síldina.

Ég tek einnig undir að það er örugglega hægt að vera með fiskifælur líka, jafnvel bara koma með gamla Siglfirðinga og setja þá þarna á brúna með fisk og athuga hvað hún gerir. Það væri kannski bara ráð.

Að öllu gamni slepptu er mjög mikilvægt að við notum reynsluna sem hér kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Möller. Jafnvel þó að ráðuneytisstjórar séu bestu menn, og ég trúi því og treysti, held ég að við eigum að leita til vísra manna, skipstjórnarmanna og gamalla síldarsjómanna sem eru til í öllum sjávarplássum og athuga hvort þeir hugsi ekki stundum líkt og síldin, eins og Binni í Gröf gerði í gamla daga þegar hann hugsaði eins og þorskurinn. Þeir vita hvað hún ætlar sér fyrir. Sem betur fer finnst hún ekki í veiðanlegu magni núna á Breiðafirði og við vitum svo sem ekki hvar hún kemur aftur fram.

Ég fagna þessari umræðu enn og aftur. Hún er mjög mikilvæg. Ég tek sérstaklega undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði um þveranir á fjörðum og öðru slíku, hvort við séum að búa til dauðagildru fyrir náttúruna, fyrir fiskana í hafinu. Við þurfum að endurskoða það og koma þá í veg fyrir að það gerist aftur. Ég treysti hæstv. sjávarútvegsráðherra til að finna lausnir á því með sínu góða starfsliði og leita ráða hjá okkar frábæru sjómönnum sem búa örugglega yfir þekkingu til að leysa þessi mál.

Ég minni á að þetta segir okkur líka hvort við stundum hvalveiðarnar af nógu miklu kappi, hvort við þurfum að auka þær svo við verðum ekki fyrir slíkum skaða. Við verðum þá að skoða það.

Mikilvægast af öllu er að við náum þessari síld áður en hún gengur á land og gerum úr henni verðmæti. Það hafa komið fram hugmyndir um að þau verðmæti mættu að hluta til ganga til Landspítalans eða heilbrigðisstofnana. Mér finnst það jafn góð hugmynd og hvað annað. Mikilvægast er að við breytum kostnaði í verðmæti og sigrum náttúruna í þessu að ég held ójafna stríði.