143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið merkilegt að hlusta á þessa umræðu því að hv. þingmenn eru í því hlutverki að vera með svolitla ágiskun um hvað það gæti nú hugsanlega verið sem veldur því að hæstv. ráðherra hugnist að draga þessi lög til baka. Þetta eru svona orðaleikir; getur það verið þetta, getur það verið hitt? Minnir mann á Útsvar að nokkru leyti þar sem menn leggja fram einhverjar setningar og orð og hvað þar er á bak við. Auðvitað eigum við ekki að vera í slíkum vangaveltum heldur á hæstv. ráðherra að koma skýrt fram með hvað veldur því nákvæmlega að hann telur að afturkalla þurfi lögin.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann kom inn á það að við mættum ekki verða eftirbátar annarra landa í kringum okkur sem við miðum okkur oft við, hvort hann geti frætt mig betur um það hvernig ástandið er til dæmis í Noregi varðandi þessi mál, hvort hann þekki það.

Hann kom inn á utanvegaakstur og að honum þætti það vera mikill ljóður, sem það er. Telur hann að ef ekkert frumvarp kemur fram á næstunni frá ráðherra sem tekur á þeim málum og að sá mikli straumur ferðamanna hingað til landsins og aukning á að menn komi með bíla sína — sá hópur hafi fengið fregnir af því að þessum lögum hafi verið kippt úr sambandi — geti valdið því að menn fari svolítið í ólympískan akstur um hálendi landsins? Við erum orðin þekkt, miklu þekktari þjóð en við vorum fyrir nokkrum árum og því veldur ýmislegt eins og eldgos og góð ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili [Hlátur í þingsal.] og margt annað. Þess vegna vil ég vita hvort hv. þingmaður deili þeim áhyggjum að Ísland verði markaðssett fyrir torfæruakstur um hálendið.