143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:49]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn miðað við hvernig hún talaði um þetta mál hvers vegna síðasta ríkisstjórn kláraði það ekki einfaldlega. Þingmaðurinn vitnaði í ýmsar umsagnir um málið en sleppti til dæmis að vitna í að ýmis samtök fögnuðu því að afturkalla ætti lögin og nefni ég sem dæmi Skógræktarfélag Íslands.

Svo verð ég að fá að segja að þegar þingmaðurinn vitnaði í málþóf þegar þingmaðurinn var sjálfur í meiri hluta kom leiftursnöggt upp í hugann: Hvað er þá í gangi hér og hefur verið í gangi síðastliðnar tvær klukkustundir, skulum við segja? Af því að þingmaðurinn talaði um náttúrubörn og að framsóknarmenn væru engin náttúrubörn ætla ég að tilkynna þingmanninum að þeir sem eru í Samfylkingunni eða Vinstri grænum hafa ekki einkarétt á því að vera umhverfisverndarsinnar.