143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú samt þannig að þingmönnum er leyfilegt að segja það sem þeim finnst þótt þeir séu í andsvari við annan þingmann. Hv. þingmanni hefði verið leikur einn að tjá skoðun sína á þessu máli í stað þess að krefja eingöngu aðra um það sem hann telur vera efnislegt innihald í þessu máli.

Ég segi það enn og aftur: Þetta er flókinn og mikill lagabálkur sem mér finnst að við verðum að fara yfir hvort sem við teljum að það komi eitthvað nýtt inn eða ekki. Áherslan er á varúðarregluna. Varúðarreglan er það sem helst steytir á. Ég hvet sérstaklega hv. nýliða til að kynna sér þetta, ekki bara þann sem var í andsvari við mig heldur líka aðra því að auðvitað hefur maður áhyggjur af því ef reynsluleysi verður til þess að mál renni í gegnum þingflokka án þess að fólk spyrni við fótum. Nú hef ég ekki setið fundi ríkisstjórnarmeirihlutans þannig að ég veit ekki hvort það var einhver viðspyrna en í þeim málum sem hafa verið til umræðu hér hefur nýja fólkið í meiri hlutanum komið hingað og brýnt sitt fólk í ýmsum málum, varðandi hin ýmsu mál, af hverju ekki núna? Af hverju sitja stjórnarþingmenn ekki í sal og taka þátt í þessu stóra og mikla máli? Einn varaþingmaður kýs að sitja hér. Allir hinir níu þingmennirnir sem koma hingað upp, helst undir liðnum um störf þingsins, sumir þeirra undir óundirbúnum fyrirspurnum, eru með spurningar til ríkisstjórnarinnar og hvetja hana til dáða. Ég vildi sjá þá þingmenn koma hingað og hvetja hæstv. umhverfisráðherra til góðra verka.