143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst í raun og veru heyra til ákveðinna tíðinda, þó að það hafi komið fram hér sem nefnt var um skipulagsvaldið, að miklu virkara samráð verður við sveitarfélögin við gerð sjálfrar náttúruminjaskrár. Þar tel ég að sóknarfærin felist fyrir sveitarfélög a.m.k. Þau geta haft ákveðin mótandi áhrif þar á. Eins og fyrirkomulagið er í þeim lögum sem samþykkt voru 1999 er miðað við að Alþingi samþykki áætlun og er því ekki skylt að hafa neitt samráð við sveitarfélög.

Ef við tökum þetta áfram þá er mín skoðun sú að ríki og sveitarfélög þurfi að hafa samráð. Þetta eru auðvitað tveir angar af hinu opinbera valdi sem varðar okkur öll miklu í daglegu lífi. Þarna er verið að lögbinda ákveðið samráð. Ég tel í raun og veru að það megi byggja heilmikið ofan á það sem liggur þegar fyrir, þ.e. lögin sem eiga að taka gildi í apríl 2014.