143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég tel að það sé mikilvægt að við höfum hér trúverðugt vitni um að það var auðvitað alls ekki þannig að allir þeir sem gerðu einhverjar athugasemdir við frumvarpið væru á móti því í heild sinni nema síður sé. Manni hefði enda brugðið í brún ef mörg þau ágætu samtök sem létu sig þetta varða, eðlilega, og eru almennt mjög umhverfisverndarsinnuð hefðu verið á móti þessum lögum sem slíkum. Það var ekki, en það getur verið núningur um einstök atriði.

Nú veit ég ekki betur en að bæði í vinnsluferli málsins og svo í mikilli vinnu nefndarinnar hafi menn verið að hamast við að reyna að útkljá þessi núningsatriði og fækka ágreiningsefnum. Mikil vinna fór í það. Og jú, menn geta haft þá trú á sjálfum sér að þeir geri betur en það kemur þá í ljós, dómur reynslunnar fellur þá á það.

Varðandi almannaréttinn sem hér var nefndur held ég að það eigi ekki að vera neinn grundvallarágreiningur um hann. (Forseti hringir.) Ég hef aldrei skilið það svo að ágreiningur væri um rétt manna til frjálsrar ferðar um landið háð skynsamlegum reglum.