143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[12:01]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um háhraðanettengingar í dreifbýli. Ásamt mér eru meðflutningsmenn hv. þingmenn Bjarkey Gunnarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðbjartur Hannesson, Valgerður Bjarnadóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Páll Valur Björnsson og Jón Þór Ólafsson.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra, og eftir atvikum í samstarfi við fjarskiptasjóð, að gera nýja þarfagreiningu og landsáætlun um háhraðanettengingar utan þéttbýlis með það að markmiði að innan fjögurra ára eigi allir landsmenn kost á háhraðanettengingum sem standast kröfur samtímans um flutningsgetu.

Þá verði kannað sérstaklega hvort rétt sé í þessu skyni að skilgreina uppsetningu einstakra fjarskiptaleiða í dreifbýli sem styrkhæfa úr fjarskiptasjóði gegn heildsölukvöð og setja reglur um slíka tilhögun. Jafnframt verði gerð úttekt á áhrifum þess að fella niður vörugjald á ljósleiðarastrengjum eða láta það renna til fjarskiptasjóðs.“

Ég ætla aðeins að stikla á stóru í greinargerðinni, en í gildi eru tvær þingsályktanir um fjarskiptaáætlun, þingsályktun um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014, og þingsályktun um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022. Þær eru báðar gerðar á grundvelli laga um fjarskipti. Fyrrgreindar þingsályktanir miða að aðgengilegum og greiðum fjarskiptum og innihalda ákvæði sem lúta að fjarskiptum á strjálbýlum svæðum. Hér skal vakin athygli á því að í þingsályktun um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022 segir að í fjarskiptaáætlun skuli leggja áherslu á að stuðla að atvinnuuppbyggingu, bættum lífsgæðum og jákvæðri byggðaþróun og enn fremur að öllum landsmönnum verði tryggð jöfn aðstaða til að tileinka sér möguleika upplýsingatækninnar og að dregið verði úr aðstöðumun fyrirtækja í dreifbýli og þéttbýli hvað varðar verð og framboð á fjarskiptaþjónustu. Af þessu er ljóst að efni þessarar þingsályktunartillögu og fyrri samþykkta Alþingis um málið samræmast fyllilega.

Fjarskiptasjóður var stofnaður með lögum um fjarskiptasjóð árið 2005, og er hlutverk hans að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun, og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum. Samkvæmt þessu er sjóðnum einkum ætlað að stuðla að uppbyggingu fjarskipta á strjálbýlli svæðum landsins þar sem virkrar samkeppni fjarskiptafyrirtækja á markaði gætir ekki.

Svonefnt háhraðanetsverkefni fjarskiptasjóðs, sem enn stendur yfir, hefur það að markmiði að tryggja heimilum utan þeirra svæða sem sinnt er á markaðsforsendum aðgang að nettengingu með a.m.k. 2Mb/s flutningsgetu óháð tækni. Verkefnið byggist á samningi fjarskiptasjóðs við Símann hf. sem var gerður 2009 í kjölfar útboðs og gildir til 2014.

Árið 2012 höfðu 94,6% íslenskra heimila aðgang að neti samkvæmt tölum Hagstofu Íslands og má því með sanni segja að netaðgangur sé gríðarlega algengur og netnotkun einnig en 96,2% landsmanna á aldrinum 16–74 ára tengdust netinu einhvern tímann á árinu 2012 samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Greið og örugg fjarskipti, þar á meðal nettengingar sem uppfylla kröfur og þarfir notenda, eru afar mikilvægur þáttur í lífi nútímafólks eins og tölur um netnotkun Íslendinga sýna. Gildir þá einu hvort litið er til náms, starfa, upplýsingamála, verslunar og þjónustu, fjölmiðlunar, öryggismála eða afþreyingar. Því er að vonum að íbúar hinna strjálbýlli svæða landsins leggi mikla áherslu á að geta notið þeirra möguleika sem nútímafjarskipti veita til jafns við íbúa hinna þéttbýlli svæða. Það sjónarmið að skilvirk og örugg fjarskipti séu meðal mikilvægustu grunnþátta í innviðum samfélagsins nýtur sífellt víðtækari viðurkenningar.

Mér finnst rétt í þessu sambandi að nefna nýlegan úrskurð Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þess efnis að lagning og starfræksla Skeiða- og Gnúpverjahrepps á ljósleiðara samræmist reglum um ríkisaðstoð samkvæmt EES-samningnum, enda væri verkefnið til þess fallið að auka samkeppnishæfni þessa dreifbýla svæðis og að ekki hefðu verið líkur á að fjárfest yrði í slíkum háhraðanettengingum í sveitarfélaginu á markaðsforsendum í náinni framtíð, eins og segir í tilkynningu ESA um úrskurðinn.

Í því skyni að efla hvata fjarskiptafyrirtækja til að auka framboð á fjarskiptaleiðum eins og nýjum ljósleiðurum eru í fljótu bragði tvær leiðir sjáanlegar. Í fyrsta lagi með því að skilgreina staði þar sem skortur er á nægilegu framboði, t.d. sökum þess að ljósleiðarasambönd eru ekki tiltæk, og að bjóða framlag til framkvæmdarinnar úr fjarskiptasjóði, annaðhvort fast hlutfall af samþykktum framkvæmdakostnaði eða tiltekna upphæð sem tæki mið af gagnsæjum reglum og viðmiðunum, t.d. víðáttu þjónustusvæðis framkvæmdarinnar. Á móti kæmi heildsölukvöð á eiganda ljósleiðarastrengs.

Í öðru lagi með því að lækka tilkostnað fjarskiptafyrirtækja við uppbyggingu fjarskiptaleiða og má þar nefna að af ljósleiðurum er nú innheimt 15% vörugjald. Leiða má að því rök að meira verði lagt af ljósleiðurum og fyrr en ella ef vörugjaldi af þeim yrði aflétt. Einnig mætti meta áhrif þess að láta vörugjaldið renna í fjarskiptasjóð sem byði síðan framkvæmdaraðilum endurgreiðslu á því vegna skilgreindra flutningsleiða.

Það kom mjög skýrt fram hjá sveitarstjórnarmönnum og öllu því fólki sem við þingmenn hittum í kjördæmaviku í síðasta mánuði að gera þarf átak í fjarskipta- og háhraðatengingum víða á landsbyggðinni og tóku margir svo djúpt í árinni að segja að þessir þættir réðu úrslitum um hvar ungt fólk veldi sér búsetu til framtíðar.

Á ársþingi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í október síðastliðnum var kynnt áhugaverð skýrsla sem María Björk Ingvadóttir vann fyrir þessi sveitarfélög með styrk úr velferðarráðuneytinu og bar hún nafnið Framtíðaráform ungs fólks. Þar komu fram margar áhugaverðar upplýsingar um hvert hugur unga fólksins stefnir í menntun og búsetu í þessum landshluta. Sterkur vilji og áhugi kom fram hjá þessu unga fólki að fara í nám í listum og í skapandi greinum og gegnumgangandi var gerð sú krafa að fjarskipti og háhraðatengingar væru sambærilegar í dreifbýli og í þéttbýli. Þetta á eflaust við um ungt fólk alls staðar í dreifbýli. Það vill gjarnan geta búið áfram í heimabyggð en gerir þá sjálfsögðu kröfu að búsetuskilyrði séu jöfnuð svo að menntun þess nýtist og fjölbreytileg atvinna geti þrifist í dreifðum byggðum jafnt og í þéttbýli.

Niðurstaða þessarar áhugaverðu skýrslu var að atvinna ræður því hvar maður getur búið en þjónusta og afþreying ræður hvar maður vill búa. Þarna ráða háhraðatengingar og góð fjarskipti miklu því að þetta eru lykilatriði í nútímasamfélagi.

Ferðaþjónusta hefur verið að eflast á landsbyggðinni og öflug háhraðatenging er henni því mjög mikilvæg. Viðurkennt er að léleg fjarskipti, hvort sem um ræðir síma, nettengingu eða aðra gagnaflutninga, geta staðið í vegi fyrir uppbyggingu fyrirtækja og veiki þar með búsetu á svæðum. Um slíkt væri hægt að nefna mörg dæmi. Það er því mjög mikilvægt að íbúar dreifbýlisins standi jafnfætis öðrum íbúum landsins hvað varðar öll fjarskipti og internetþjónustu því að í nútímasamfélagi er þetta, eins og ég nefndi áðan, stór þáttur í lífi fólks, leik og starfi.

Hlutverk fjarskiptasjóðs er því mjög mikilvægt í byggðalegu tilliti og brýnt að sjóðurinn sinni vel hlutverki sínu og fjármagni sé úthlutað í þau verkefni sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun hverju sinni. Sem betur fer hefur okkur miðað ágætlega áfram en betur má ef duga skal og aukin fjárframlög þurfa að koma til svo að fjarskiptasjóður geti sinnt sínu lögbundna hlutverki vel. Alþingi verður að sammælast um að tryggja landsmönnum öllum örugg fjarskipti og háhraðatengingar sem mæta kröfum nútímasamfélags, hvort sem það tengist námi, starfi, afþreyingu eða öryggi íbúanna.

Að umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.