143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

háhraðanettengingar í dreifbýli.

203. mál
[12:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða afskaplega mikilvægt mál og það gleður mig að við höfum lagt það fram. Mig langaði að nefna, eins og aðrir hv. þingmenn hafa gert, að þegar almennilega nettengingu skortir þá er ýmislegt sem er ekki lengur í boði. Sem dæmi eru myndsímar, maður getur ekki með góðu móti verið í mjög nánum samskiptum við margt fólk. Það er ekkert mál hins vegar ef maður er maður almennilega nettengingu þannig að þetta getur verið félagslega mikilvægt. Það er kannski ekki þannig sem allar kynslóðir nota það nú til dags, en vissulega notar yngri kynslóðin það þannig og kemst þannig í tengsl við umheiminn allan, ekki bara á Íslandi og við fólk sem það þekkir, heldur gjörvallan heiminn eða svo gott sem, vissulega þann hluta heimsins sem er á svipuðum tíma.

Einnig er hægt að nýta netið til að byggja upp öll ritstörf hvar sem maður kemst í almennilega nettengingu, hvort sem það eru þýðingar eða skáldskapur eða hvaðeina. Það er auðvitað fyrir utan hugbúnaðarvinkil og alla þá vinnu sem hægt er að vinna í gegnum netið í tölvugeiranum sjálfum. Allt sem varðar upplýsingar er hægt að gera í gegnum netið, enda er netið lítið annað en upplýsingatæknin, ef nokkuð.

Þannig er það líka með heilsugæslu, fólk sem sérstaklega á við andleg vandamál að stríða eða kannski ofbeldi eða eitthvað því um líkt getur sótt sér aðstoð í gegnum netið með mynd og þá er það mjög mikilvægt vegna þess að það er meiri nánd í því.

Tækifærin sem fylgja netinu, ekki má gleyma skólanum, menntunartækifærunum. Menntunartækifærin eru ekki tækifæri til að komast í formlegan skóla, svo sem háskóla eða menntaskóla, heldur til að gera einföldustu hluti. Ég lærði til dæmis að binda bindi á YouTube, nokkrum klukkutímum fyrir þingsetningu, ef ég man rétt, og átti ekki í neinum vandræðum með það enda úr ýmsu að velja. Sömuleiðis að elda ýmiss konar mat. Þegar maður var í útlöndum og átti ekki mikið að borða og þurfti að læra að nýta það eitthvað, þá fór maður bara á netið og fann eitthvað. Það er ekkert mál. Það er hægt að komast upp með að vera ótrúlega illa upplýstur svona formlega, svo lengi sem maður hefur almennilega nettengingu og kann að nýta hana almennilega. — Kannski er ég bara svona mikill tölvunörd en ég fullyrði að þau verða fleiri í framtíðinni.

Það er ýmislegt sem er hægt að gera til að bæta þessi mál víðs vegar á landinu, t.d. fella niður ýmis gjöld, tolla, skatta og því um líkt á búnaði, sérstaklega þegar það er búnaður sem annars er ekki keyptur hvort sem er. Það er auðvitað ekki tekjumissir fyrir ríkið að fella niður slík gjöld ef kaupin eiga sér aldrei stað til að byrja með vegna skatta eða tolla. Sömuleiðis eiga sum sveitarfélög við það undarlega vandamál að stríða að hafa hvorki jákvæðar afleiðingar markaðarins né jákvæðar afleiðingar samneyslunnar fyrir hendi. Þá eru svæði, eins og hefur verið nefnt hérna, sem eru talin markaðshæf og reynast það ekki. Það er kannski einn þjónustuaðili á svæðinu og hann stendur sig ekki og hefur enga hagsmuni af því að standa sig og ríkið má ekki aðstoða vegna þess að samkeppnisaðili eða einkaaðili er á svæðinu. Það er eiginlega það versta, hvort sem menn eru til hægri eða vinstri verður það ekkert verra frá þeim sjónarhólnum.

Það var ekki fyrr en í kosningabaráttunni sem ég áttaði mig á því hvað netmál eru slæm víða á landinu. Það kom mér verulega á óvart. Ég hafði alltaf einhvern veginn bara gefið mér að þetta væri í góðu lagi alls staðar, enda er ég nær alltaf í Reykjavík og netið er alltaf fínt í Reykjavík og í þéttbýli almennt. Það hneykslaði mig virkilega í kosningabaráttunni að komast að því hversu slæmt þetta væri og hversu víða. Mér fannst svolítið skrýtið að við töluðum ekki meira um þetta vegna þess að tækifærin sem verið er að missa af eru gríðarlega mikil og verða alltaf meiri og meiri. Hver kynslóð notar netið heldur meir en sú fyrri til allra sinna starfa og þekkingaröflunar. Því skiptir þetta alltaf meira og meira máli og þá sérstaklega í sambandi við fólksflótta af landsbyggðinni. Fólk sér sér ekki fært að búa endilega á landsbyggðinni vegna þess að það vantar ýmsa þjónustu.

Þarna fullyrði ég að hér getum við nýtt peningana allra best. Við fáum hvað mest fyrir peningana með því að stuðla að þessu verkefni. Ég ætla að ljúka ræðu minni á þeim orðum.