143. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2013.

lekinn hjá Vodafone og lög um gagnaveitur.

[15:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt var framinn tölvuglæpur hér um helgina þar sem umfangsmiklum gögnum var stolið frá Vodafone og persónulegum skilaboðum var dreift á netinu, þúsundum persónulegra skilaboða, sum hver sem tengjast hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum. Þar er líka að finna ástarjátningar, kynlífslýsingar, hjúskaparbrot og jafnvel viðkvæmar upplýsingar frá læknastofum. Þegar skyggnst er ofan í þetta mál kemur á daginn að þetta eru gögn sem hafa verið geymd mun lengur en þá sex mánuði sem kveðið er á um í lögum.

Þetta mál hlýtur að vekja talsvert af spurningum. Ég hef nú þegar óskað eftir fundi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara yfir málið með fulltrúum Póst- og fjarskiptastofnunar og innanríkisráðuneytis, fjarskiptafyrirtækjunum og ríkislögreglustjóra. Það sem auðvitað hlýtur að koma upp í huga manns er að eftirliti hins opinbera með því að þessum lögum sé fylgt, að þessum gögnum sé eytt eftir sex mánuði — þetta eftirlit, hvar er það? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er þessu eftirliti háttað? Hvernig getur svona nokkuð gerst eða hefur ekkert eftirlit verið með þessum fyrirtækjum?

Það kemur á daginn að Síminn lýsti því yfir að hann hefði einnig farið í gagnaeyðingu þegar þetta mál kom upp af því að þar hefðu líka verið gögn sem voru eldri en sex mánaða gömul. Mig langar því að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað hún ætlar að gera í málinu. Er það nóg að setjast niður og fara með þessum fyrirtækjum yfir verklagsreglur þegar lög hafa verið brotin með þessum hætti? Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða gagn hafa þessi lög um gagnageymd í raun og veru gert, að setja það inn í lög að geyma þessi gögn í sex mánuði sem svo eru þverbrotin eins og hér kemur í ljós? Hvaða gagn hafa þessi lög gert? Er ástæða til að endurskoða þetta ákvæði sem sett var í lög 2005, (Forseti hringir.) að geyma skuli öll þessi persónulegu gögn fjölda saklausra einstaklinga í sex mánuði og síðan eru þau lög brotin?