143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

um fundarstjórn.

[15:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Enn þá einu sinni leyfi ég mér að segja að hér fer af stað hér leikrit. Það kom fram á þingflokksformannafundi á mánudaginn að hæstv. forseti þingsins, Einar K. Guðfinnsson, ætlaði ekki að breyta þeim nefndadögum sem nú eru fram undan. Hann taldi að jafnt í fjárlaganefnd sem öðrum nefndum væru mörg mál sem þyrftu úrlausnar við. Hann greindi jafnframt frá því að þegar 2. umr. fjárlaga færi fram, sem fyrirhuguð væri 10. desember, yrði íhugað hvort bæta þyrfti við nefndadegi milli 2. og 3. umr. fjárlaga.

Það er því með ólíkindum, virðulegur forseti, að sá aðili sem sat þennan fund sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir, skuli koma í ræðustól á Alþingi og spyrja enn einu sinni um það sem hún hefur þegar fengið svar við frá hæstv. forseta þingsins.