143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

þingstörfin fram undan.

[15:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg. Það hefur verið talað um að nýir þingmenn skilji ekki hvernig er unnið hér og gert lítið úr því. Kannski væri þó einmitt hollt fyrir okkur að hlusta á þá sem eru nýir vegna þess að vinnubrögðin sem tíðkast hér tíðkast ekki á öðrum vinnustöðum. Ég held að við ættum frekar að vera gagnrýnin á vinnubrögðin hérna inni.

Ég segi það sama og aðrir, ég víla ekkert fyrir mér að vinna hér kvöld og helgar. Við erum samt nokkrir þingmenn sem raunverulega búum á landsbyggðinni og munum halda jólin þar með okkar fjölskyldum. Það er nett stressandi ef við ætlum að vera fram á aðfangadag, í desember þegar veður eru válynd. Á ég að panta flug eða vera tilbúin að leigja jeppa? Mér þætti ósköp gott ef við værum búin á Þorláksmessu svo ég segi það bara.

Líka þetta með að hóta — mér finnst ekki alveg skemmtilegt þegar sagt er: Við vinnum þá bara kvöld og nætur og helgar. Það er ekkert gagn að mér á nóttunni, ég get alveg sagt það (Forseti hringir.) strax. Það er ástæða fyrir að það voru sett vökulög. (Gripið fram í.)