143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[19:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að nútíminn er saga framtíðarinnar og þess vegna erum við líka að skapa söguna einmitt með því sem við erum að gera eða gera ekki í deginum í dag. Ég hef sagt það stundum mér til skemmtunar og samferðamönnum mínum til hrellingar að málvilla dagsins í dag er málsaga dagsins á morgun.

Mig langar líka til að nefna vegna PISA-umræðunnar að ég held að við þurfum að vera meðvituð um að PISA er að sumu leyti þröngur mælikvarði. Hann er mikilvægur vegna þess að við getum borið saman punkta, ekki bara okkur sjálf eða aðra heldur líka okkur sjálf við okkur sjálf eins og við brýnum alltaf fyrir börnunum okkar að gera. Það eru líka þættir sem koma núna inn í heildarsýnina á það hvað læsi er. Læsi sem felst beinlínis í því að horfa á bókstafi og breyta þeim í hljóð og síðan í orð er orðinn einn hluti af stærri mynd sem er læsi á upplýsingar í heild; upplýsingalæsi, nýmiðlalæsi, læsi á fréttir, læsi á vefinn, læsi á auglýsingar, læsi á umhverfið í heild.

Mér þætti gaman að sjá einhvern mælikvarða á það hvernig ótrúlega ungir krakkar ráða við ótrúlega flókin áreiti og geta greint úr þeim þekkingu og upplýsingar og stundum miklu, miklu betur en við sem eldri erum.

Ég átta mig á mikilvægi þess að þeir mælikvarðar séu fyrir hendi sem við erum að skoða í PISA, en ég held að um leið sé afar mikilvægt að við skoðum það að heimurinn breytist svo hratt að við þurfum líka að hafa mælikvarða sem ráða við breytta tíma.