143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

samvinna við sveitarfélögin um skuldaleiðréttingar.

[14:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma í raun og veru sem eitt stórt spurningarmerki. Það er ákaflega margt sem mig langar að spyrja um vegna þess að ég upplifi þingstörfin í mjög mikilli óvissu. Maður les í blöðunum um stórar fyrirætlanir, skuldaleiðréttingar — maður veit ekki hvort á að fara í að skerða barnabætur eða ekki, greinilega á að fara í það skammarlega verkefni að skerða þróunaraðstoð. Það er óljóst hvar ákvarðanir eru teknar í þessum efnum.

Mig langar að spyrja sérstaklega í fyrri hluta fyrirspurnar minnar út í verklagið, samráðið. Þetta varðar ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra, þetta varðar fjárlögin.

Tökum sem dæmi: Það er búið að boða hér að fella eigi niður skatt á séreignarsparnaði. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur í fréttir og segir ekkert samráð hafa verið haft við sveitarfélögin í þeim efnum. Þessi aðgerð þýðir tekjumissi upp á marga milljarða fyrir sveitarfélögin. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir: Það er ekkert samráð. Við könnumst við það hér á þingi að það er ekkert samráð.

Fjárlögin verða að afgreiðast fyrir jól. Væntanlega verður eftirgjöfin af skatti á séreignarsparnaði að koma inn í þann pakka allan saman. Við heyrum einhvern kvitt um að það eigi að koma 20 milljarða nýr tekjupóstur, sem er bankaskattur, með gríðarlega stórum lögfræðilegum álitaefnum sem eru tengd við það mál.

Hvenær ætlar hæstv. ráðherra að koma með þessi mál inn í þingið? Hvenær ætlar hann að hefja samráð við sveitarfélögin, við atvinnulífið, við verkalýðsforustuna? Á að gera þetta allt saman á Þorláksmessu eða hvert er planið?