143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

samvinna við sveitarfélögin um skuldaleiðréttingar.

[14:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Hér stangast allt á. Ég hef ekki heyrt af því í efnahags- og viðskiptanefnd, sem mun væntanlega fjalla um hinn nýja eða aukna bankaskatt og væntanlega líka skattafsláttinn á séreignarsparnaðinn, að það eigi að koma hér inn fyrir 2. umr. fjárlaga. Okkur er sagt að hann eigi að koma inn milli 2. og 3. umr. Það er samkvæmt mínum kokkabókum einhvern tímann í kringum Þorláksmessu. Miðað við hvað þetta eru stór mál er þetta auðvitað algjörlega óviðunandi. Við þurfum miklu meiri tíma.

Ég vil líka benda á að þetta er mjög alvarlegt. Skortur á samráði, skortur á umræðu leiðir til vondra ákvarðana. Hvaða mynd erum við til dæmis að horfa upp á núna? Það er búið að afsala ríkissjóði tekjum á þessum fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar upp á á annan tug milljarða, ég held að það sé óhætt að segja það, með ákvörðunum sem teknar hafa verið af stjórnarmeirihlutanum.

Og núna er verið að ræða að mæta fjárþörf í heilbrigðiskerfinu með því að skera niður í þróunaraðstoð, hugsanlega barnabótum og vaxtabótum. Það lýsir (Forseti hringir.) pólitík. Við mundum aldrei gera svona í Bjartri framtíð og ég vil biðja hæstv. ráðherra að rökstyðja þá forgangsröðun.