143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

bætur vegna kynferðisbrota í Landakotsskóla.

[14:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Enn og aftur ítreka ég þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég held að það sé líka rétt að nefna það hér, vegna þessarar umræðu, að á undanförnum árum hefur töluvert mikið verið lagt í, og mikil vinna lögð í það, að auka vitund og skilning á kynferðislegu ofbeldi í skólakerfinu, að vekja þá sem þar starfa til mikillar umhugsunar um það að lesa vel þau hættumerki sem geta komið upp og hvað beri að gera komi einhver mál upp. Slík vinna hefur gengið vel og er rétt að þakka þeim sem hafa lagt mjög mikið á sig hvað það varðar á undanförnum árum.

Það breytir ekki því að þegar litið er til baka vitum við að upp hafa komið mál sem hafa gerst hér fyrir áratugum síðan sem eru fyrnd. Það sem menn hafa sagt er að allt bendi til þess og það sé næstum því talið sannað að atburðir sem eru óforsvaranlegir hafi átt sér stað og þá eigi að bæta.

Ég ítreka þetta aftur. Ég tel að kaþólska kirkjan eigi að taka þetta mál upp og sýna þá reisn (Forseti hringir.) að bæta þetta með sanngjörnum hætti því að bæturnar voru ekki sanngjarnar; þær voru of lágar til þess að geta í raun verið kallaðar sanngirnisbætur.