143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta er nokkuð sérkennileg staða sem er komin upp. Það var þannig, hæstv. forsætisráðherra til upprifjunar, að ríkisstjórnin samþykkti breytingartillögur sínar á sérstökum ríkisstjórnarfundi á föstudaginn var. Þær voru kynntar af embættismönnum fjármálaráðuneytisins fyrir fjárlaganefnd á þeim sama föstudegi.

Nú stendur forsætisráðherra flissandi í ræðustól Alþingis og talar um þetta sem einhverjar hugmyndir og vangaveltur, það sem fjárlaganefndin er komin með á sitt borð og hv. formaður fjárlaganefndar talar fyrir í fjölmiðlum. Við fáum flissandi forsætisráðherra um að þetta sé bara eitthvert grín og við fáum fréttir í Ríkisútvarpinu í hádeginu um að verið sé að skoða breytingar á tillögum sem eru til meðferðar hjá fjárlaganefnd í ríkisstjórn.

Virðulegur forseti. Bíddu, hvernig er eiginlega verklagið hjá þessari ríkisstjórn (Forseti hringir.) og hjá þessum meiri hluta?