143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Helga Hjörvars hvað varðar fagnaðarefnin sem eru að hrannast upp undir þessum lið, þ.e. að svo virðist sem hin opinbera umræða sem hefur verið að draga sig upp á undanförnum sólarhring sé að berja ríkisstjórnina til baka að því er varðar áform um lækkun barnabóta. Það verður spennandi að sjá hvað næstu dægur leiða fram í dagsljósið að því er varðar vaxtabætur, að því er varðar þróunarsamvinnuna, að því er varðar starfsendurhæfinguna og fleiri þætti sem full ástæða væri til að taka til endurskoðunar. Ég vil bara hvetja hv. þingheim að standa með forsætisráðherra í því að efast um þessi áform sem hafa verið kynnt í fjölmiðlum. En eftir stendur að það er vandræðalegt að menn virðast ekki njóta fulls umboðs þegar þeir koma fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum og í opinberri umræðu.