143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór að tala um IPA-styrkina vegna þess að hv. þingmaður ræddi um það á þann hátt, það mátti skilja að gert hefði verið ráð fyrir þeim í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Við vitum að Samfylkingin og Vinstri grænir stóluðu mjög á þessa styrki og í raun má segja að IPA-styrkirnir hafi verið hálfgerð hefndargjöf vegna þess að íslenska ríkið þurfti að leggja 50% á móti styrkjunum sem komu frá Evrópusambandinu. Þar með var ekki hægt að eyða því fé í annað en sérmerkt Evrópusambandsverkefni sem byggja átti upp hér á landi vegna aðildarumsóknar. Það er kannski þess vegna sem vandræðin eru slík sem raun ber vitni því að þá var ekki hægt að nota það fé í forgangsröðun fyrir þegna landsins.

En varðandi fjarskiptasjóð — við erum að leggja til að 195 millj. kr. tekjur verði ekki sérmerktar sjóðnum sjálfum. Það eru mikil vandræði hjá fjarskiptasjóði sem við höfum verið að skoða í fjárlaganefnd sem snýr að Farice-strengnum sem vinstri flokkarnir mokuðu stanslaust fé í á síðasta kjörtímabili. Hann er með ríkisábyrgð þannig að við erum að skoða málefni fjarskiptasjóðs í heilu lagi. Og það er stefna Framsóknarflokksins að rafmagn sé alls staðar á landinu og líka internettenging.