143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samkvæmt breytingartillögum sem hv. þingmaður er einn af flutningsmönnum að kemur fram á tekjuhliðinni að hallinn er rúmir 20 milljarðar kr. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar frá því í sumar auk IPA-styrkjanna eru upp á rúma 4 milljarða kr. Menn sem eru sleipir í prósentureikningi geta því reiknað út hvað þessi beinu áhrif skipta miklu máli þegar við metum og greinum af hverju við náðum ekki markmiðum okkar. Til viðbótar því skila neysluskattarnir sér síðar inn á árinu.

Það er sama hvað við deilum mikið um þetta hér úr þessum ræðustól, þetta er jafn slæmt fyrir þjóðina því að það er auðvitað hagur allra að við náum sem fyrst heildarjöfnuði og komumst sem fyrst í þá stöðu að geta farið að greiða niður skuldir. En auðvitað hljótum við að draga fram aðgerðir stjórnvalda, bæði fyrri og þeirrar nýju, sem verða til þess að ekki nást þau markmið sem að var stefnt. Þannig er það bara, virðulegur forseti, að þessar aðgerðir skipta miklu máli og hafa veruleg áhrif á forgangsröðun og val á þeim verkefnum sem fjármunum er beint að hjá nýrri ríkisstjórn.