143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að staldra við sama lið og hæstv. ráðherra nefnir í sinni stuttu ræðu — og kannski ekki síst vegna þess að þessi athugasemd hæstv. ráðherra er grein af sama meiði og ítrekað hefur komið upp í umræðunni bæði um fundarstjórn forseta og efnisatriði máls, þ.e. um samskiptin milli manna og kvenna í stjórnarmeirihlutanum.

Það er mjög sérkennilegt og raunar hefði kannski, úr því að staðan er eins og hér kemur fram, verið best að hæstv. utanríkisráðherra hefði farið í andsvar við formann fjárlaganefndar. Það hefði verið ein leið til að opna þetta samtal hér í þingsal. Nú er formaður fjárlaganefndar ekki í salnum til að greina frá röksemdunum bak við þessa tilteknu niðurstöðu sem ráðherrann er ósammála; það hefur komið fram í hans máli að hann komi af fjöllum, þetta komi bara í fangið á honum, þessi niðurstaða. Hann nefnir þetta misskilning og talar um misskilning sem er orðið nokkurs konar þrástef í samskiptum ríkisstjórnarflokkanna við almenning í landinu; misskilningur, það er orðið mjög títt, fer að slaga upp í algengi þess þegar hv. formaður fjárlaganefndar talar um að hér hafi farið fram kosningar, sem er líka mjög ágætt að nefna reglulega.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra efnislega um verklagið og eftirlitið, eftirlit ráðuneytisins með fjárreiðum einstakra sendiráða og hvort þetta tiltekna mál hafi orðið tilefni til þess að þeir ferlar hafi tekið einhverjum breytingum.